Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, segir myndir sem teknar voru að talningu lokinni í Borgarnesi af kjörkössum ekki vera brot. Magnús Davíð Norðdahl, frambjóðandi Pírata, segir hins vegar að myndirnar virðist sýna að aðgangur hafi verið greiðlegur að atkvæðum á milli talninga.
Konan tók myndirnar af kössunum með atkvæðum innan úr sal á Hótel Borgarnesi. Hún birti myndirnar á Instagram og virtist vera ein í salnum þegar myndirnar voru teknar. Þá skrifar hún: „Talningu er lokið.“
Aðspurður um myndirnar og hvort þær vekji upp spurningu um lögmæta meðferð kjörgagna eða símabann og hvort hver sem er geti myndað kjörgögnin segir Ingi:
„Já, eftir klukkan 22 á meðan á talningunni stóð. Þá er hægt að mynda inn í salinn.“
Er ekki um að ræða brot?
„Nei, það er meira að segja streymt stundum frá talningu. Það eru ekki allir sem fá að fara inn í salinn en margir sem geta tekið mynd.“
Spyr hvað þurfi meira
Magnús Davíð segist telja að stóra atriðið vegna myndbirtanna sé að svo virðist vera sem þær staðfesti að manneskja hafi verið í salnum.
„Ég held að stóra atriðið í þessu, því það er alltaf einhver kjarni og svo er eitthvað sem þú getur ekki staðfest, það sem að þessi mynd virðist staðfesta er það, að manneskja hafi verið í salnum með óinnsigluðum kjörgögnum, að því er virðist eins síns liðs og er að því er virðist á milli fyrri og síðari talningar,“ segir Magnús.
„Hver manneskjan er skiptir kannski ekki öllu máli, heldur þetta sem ég er að segja. Þetta er svo absúrd,“ segir Magnús.
„En hún talar um að talningu sé lokið. Þá er þetta á milli talninga, það er enginn í salnum. Hún er í salnum. Kjörgögnin eru óinnsigluð, þannig að hvað þarf meira?“