Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í NV-kjördæmi neitar því ekki í samtali við Fréttablaðið að hann hafi stöðu sakbornings í lögreglurannsókn sem lokið er vegna talningar atkvæða og meðferðar kjörgagna í Borgarnesi.

Vísir greindi fyrst frá málinu og vísaði í heimildir sínar. Ingi staðfestir í samtali við Fréttablaðið að lögregla hafi tekið skýrslu af sér en vildi ekki svara hvort hann hefði haft með sér lögmann í skýrslutökuna.

„Ég ætla ekki að gefa neinar upplýsingar um þetta mál.“

Er það ekki vísbending um alvöru málsins ef öll yfirkjörstjórnin hefur stöðu sakbornings?

„Þú verður bara að spyrja lögregluna um það. Ég svara því ekki.“

Ertu vongóður um að lögreglurannsóknin leiði ekki til ákæru?

„Ég veit ekkert um stöðuna á þessari lögreglurannsókn.“

Þegar Fréttablaðið hringdi í Ingibjörgu Ingu Guðmundsdóttur, sem á einnig sæti í kjörstjórninni, sagðist hún ekki vita hvaðan fólk hefði það að allir í kjörstjórninni væru með réttar­stöðu sak­bornings.

Sagðist hún ekki ætla að tjá sig nánar um málið.

„Þetta mál er komið úr okkar höndum,“ sagði Ingibjörg.