Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis og héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjaness, segist hafa beðist afsökunar á að framkvæmd talningar og meðferð kjörgagna hafi ekki gengið sem skyldi. Hann telur sig hafa sýnt auðmýkt með því að viðurkenna mistök.
Spurður hvort hann telji að lögreglurannsókn sem Karl Gauti Hjaltason hefur með kæru farið fram á að verði hrundið af stað vegna Borgarnessmálsins muni leiða í ljós saknæmt háttalag, spyr Ingi á móti: „Er saknæmt að gera mistök?“
Hann segir að síðar í dag muni hann skila skýrslu til Landskjörstjórnar, en hann hafði fengið frest til þess af persónulegum ástæðum. Þær voru jarðarför sem hann hafi verið viðstaddur á Akureyri í gær.
Þá segir Ingi að skipunarbréf hans sé útrunnið sem formaður yfirkjörnefndar í Norðvesturkjördæmi.