Karlmaður sem ákærður er fyrir að hafa orðið eiginkonu sinni að bana í Sandgerði í mars síðastliðnum neitaði sök við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjaness í gær. Þetta staðfestir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari.

Við þingfestinguna féllst dómari á kröfu um að þinghöld í málinu verði lokuð en beiðni þar um var lögð fram af verjanda hins ákærða.

Samkvæmt 10. gr. sakamálalaga skulu þinghöld háð í heyranda hljóði en dómari getur þó ákveðið, að eigin frumkvæði eða eftir kröfu ákæranda, sakbornings eða brotaþola, að þinghald fari fram fyrir luktum dyrum, að öllu leyti eða að hluta, ef það er háð utan reglulegs þingstaðar, sakborningur er yngri en 18 ára eða dómari telur það nauðsynlegt af tilteknum ástæðum.

Féllst dómstjóri Héraðsdóms Reykjaness á nauðsyn þess að þinghöld í máli ákærða yrðu lokuð með vísan til a-liðar ákvæðisins sem heimilar að þinghaldi sé lokað sé það talið nauðsynlegt til hlífðar sakborningi, brotaþola, vandamanni þeirra, vitni eða öðrum sem málið varðar.