Fundi umhverfis- og samgöngunefndar á morgun hefur verið frestað. Í staðinn munu þingflokksformenn funda um þá stöðu sem er komin er upp í umhverfis- og samgöngunefnd eftir að Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, sneri aftur á þing.  

Sjá einnig: Vildu Berg­þór á­­fram að svo stöddu

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar sem situr í umhverfis- og samgöngunefnd, staðfestir í samtali við Fréttablaðið að fundinum hafi verið frestað og til standi að þingflokksformenn ræði stöðu mála á morgun. „Við ætluðum að funda í dag vegna þessarar uppákomu sem varð á fundinum í gær en það náðist ekki,“ segir Hanna Katrín.

Sjá einnig: Berg­þór stýrir fundinum þvert á vilja meiri­hluta nefndar

„Ég held að það hafi bara verið samhljóða álit að þetta væri heppilegast að fresta fundinum,“ segir hún og bendir á að mögulega hafi spilað inn í að á dagskrá umhverfis- og samgöngunefndar hafi verið mál sem mögulegt var að fresta. „Þar sem það náðist ekki að klára málin í dag þá var boðaður annar fundur í fyrramálið og taka stöðuna og reyna að leggja fram hugmyndir að lausnum.“

Nokkuð fjaðrafok varð í gær þegar Bergþór, sem er þingmaður Miðflokksins og formaður umhverfis- og samgöngunefndar, stýrði fundi í nefndarinnar. Bergþór sneri aftur á þing, ásamt Gunnari Braga Sveinssyni, í síðustu viku eftir að hafa tekið rúmlega mánaðarlangt leyfi frá þingstörfum í kjölfar Klaustursmálsins. Frétta­blaðið greindi frá því á föstu­dag og hafði eftir Ara Trausta Guð­munds­syni, þing­manni Vinstri grænna, að Berg­þóri væri ekki stætt sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar og færi meiri­hluti nefndarinnar fram á að hann myndi víkja eftir Klausturs­málið marg­um­talaða. Tillögu um það hvort meirihluti væri fyrir því að kjósa nýja forystu í umhverfis- og samgöngunefnd var hins vegar vísað frá á fundi nefndarinnar í gær. 

Í kjölfarið raun Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, út í fússi út tíu mínútum áður en fundi lauk. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, lýsti einnig einnig yfir reiði sinni varðandi setu Bergþórs sem formaður.