Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins, var heitt í hamsi í ræðu sinni á Alþingi í kvöld þar sem hún fór yfir víðan völl en var hinsvegar tíðrætt um velferðarmál. Þar kallaði hún eftir víðtækum breytingum og sagðist efast um að þeir sem sætu á Alþingi hefðu upplifað slíkar hremmingar.
„Flokkur fólksins er með lausnir og ég segi ykkur það að við erum ekki af baki dottin og gefumst aldrei upp,“ sagði Inga í skrautlegri ræðu. „Að hugsa sér að yfir tíu prósent barna skuli enn líða hér skort. Hér er gamalt fólk sem hefur ekki efni á því að leita sér lækninga,“ sagði Inga meðal annars.
„Er það frelsið og heilbrigðið sem við erum að bjóða? Já það er nákvæmlega það sem það er. Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur grímulaust komið á því kerfi sem við búum við í dag og kinnroðalaust haldið við þeirri fátækt sem alltof stór landsmanna býr við í dag.“
Inga sagði að auðvitað væri hægt að gera eitthvað en bara ef framkvæmt væri, í stað þess að einungis væri talað. „Flokkur fólksins hefur lausnir og boðað sínar hugmyndir. En hvers vegna erum við enn að skattleggja fátækt? Hvers vegna erum við enn að forgangsraða fjármuni þannig að stór hluti fólks líður hér skort?“
Inga sagði að ekki vantaði loforðin fyrir kosningar. Sem ekki væru haldin. Kominn væri tími á að gefa Flokki fólksins tækifærið, enda með lausnir.
„Það vantar ekki listann hvernig við ætlum að koma öllu í lag. En hverjar eru svo efndirnar? Og kæru landsmenn það sem verra er, hvernig stendur á þessu gullfiskaminni? Að í hvert einasta skipti skulið þið fara og kjósa yfir ykkur það sama, á sama tíma og þið eruð sár og fúl yfir því að ekki hafi verið staðið við loforðin?“