Ingu Sæ­land, for­manni Flokks fólksins, var heitt í hamsi í ræðu sinni á Al­þingi í kvöld þar sem hún fór yfir víðan völl en var hins­vegar tíð­rætt um vel­ferðar­mál. Þar kallaði hún eftir víð­tækum breytingum og sagðist efast um að þeir sem sætu á Al­þingi hefðu upp­lifað slíkar hremmingar.

„Flokkur fólksins er með lausnir og ég segi ykkur það að við erum ekki af baki dottin og gefumst aldrei upp,“ sagði Inga í skraut­legri ræðu. „Að hugsa sér að yfir tíu prósent barna skuli enn líða hér skort. Hér er gamalt fólk sem hefur ekki efni á því að leita sér lækninga,“ sagði Inga meðal annars.

„Er það frelsið og heil­brigðið sem við erum að bjóða? Já það er ná­kvæm­lega það sem það er. Ríkis­stjórn eftir ríkis­stjórn hefur grímu­laust komið á því kerfi sem við búum við í dag og kinn­roða­laust haldið við þeirri fá­tækt sem allt­of stór lands­manna býr við í dag.“

Inga sagði að auð­vitað væri hægt að gera eitt­hvað en bara ef fram­kvæmt væri, í stað þess að einungis væri talað. „Flokkur fólksins hefur lausnir og boðað sínar hug­myndir. En hvers vegna erum við enn að skatt­leggja fá­tækt? Hvers vegna erum við enn að for­gangs­raða fjár­muni þannig að stór hluti fólks líður hér skort?“

Inga sagði að ekki vantaði lof­orðin fyrir kosningar. Sem ekki væru haldin. Kominn væri tími á að gefa Flokki fólksins tæki­færið, enda með lausnir.

„Það vantar ekki listann hvernig við ætlum að koma öllu í lag. En hverjar eru svo efndirnar? Og kæru lands­menn það sem verra er, hvernig stendur á þessu gull­fiskaminni? Að í hvert einasta skipti skulið þið fara og kjósa yfir ykkur það sama, á sama tíma og þið eruð sár og fúl yfir því að ekki hafi verið staðið við lof­orðin?“