Inga Sæland og Guðmundur Ingi Kristinsson þingmenn Flokks fólksins fóru yfir stöðu flokksins og mála almennt í kjölfar klausturmálsins í sunnudagskaffi Flokks fólksins í dag.

Inga sagði í ávarpi sínu að málið væri að sjálfsögðu erfitt fyrir flokkinn og þau kæmu mögulega til með að tapa fylgi og fjármunum vegna málsins.

En hún sagðist vonast til að kjörnir fulltrúar hugsi sig að minnsta kosti tvisvar um áður en þeir stíga fram og haga sér eins og þessir einstaklingar gerðu.

Inga sagði enga afsökun fyrir því hvað var sagt á Klaustur bar þann 20. nóvember síðastliðinn og það væri heldur ekki afsökun að vera fullur og með því að draga slíkt fram alls væri reynt að draga athygli frá alvarleika málsins.  

Inga fór um víðan völl í erindi sínu og sagði að hún hefði upplifað mikinn kærleika og traust í baklandi sínu frá því málið kom upp. Frá öllum flokkum. 

Hún sagði að það þyrfti ekki að hafa áhyggjur af stöðu flokksins á Alþingi þó þau væru nú aðeins tvö sem sitji þar nú fyrir hönd flokksins.

Ávarp Ingu er hægt að horfa á hér að neðan í heild sinni. Að ávarpi hennar loknu tekur Guðmundur Ingi einnig til máls.