Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, og Inga Sæland, þingmaður Flokks fólksins, gagnrýndu hækkun grænna skatta um einn og hálfan milljarð á Alþingi í dag. Bjarni Ben, fjármálaráðherra, sagði græna skatta vera mikilvægan hlut af baráttunni við loftslagsvánna og mikilvægt væri að horfa á stóru myndina.

Engin staðfesting á árangri

„Það er óeðlilegt að skattleggja almenning með þessum hætti þegar ekkert er vitað um árangurinn,“ sagði Birgir um hækkun grænna skatta á Alþingi í dag. Hann sagði Umhverfisráðuneytið vera búið að staðfesta að ekki væri hægt að segja til um árangur í umhverfismálum vegna skattanna. Þannig leyfði þingmaður sér að efast um gildi þeirra.

„Nú er verið að hækka kolefnisgjaldið um 10 prósent sem þýðir um tólf eða þrettán króna hækkun á bensín og dísilolíu.“ Birgir hvatti fjármálaráðherra til að fara í saumana á málinu enda væri mikilvægt að sýna fram á að skattheimtan skilaði árangri.

Ótvíræður árangur

Bjarni svaraði því kolefnisgjald væri löngu afgreitt mál sem samþykkt hefði verið á síðasta ári. Þá spurði hann hvaða mælistiku Birgir myndi vilja leggja fram til að mæla árangur í þessum málum. Hann sagði ríkissjóð til að mynda hafa skilað til baka milljörðum til þeirra sem völdu umhverfisvænni lausnir. „Hvergi í heiminum er verið að innleiða rafbíla jafn hratt og á Íslandi, nema í Noregi.“ Þá sagði Bjarni það sýna fram á að búið væri að skila ótvíræðum árangri af ívilnunarkerfi og grænum sköttum.

Fjármálaráðherra hafði áður tekið fram að sköttunum væri ekki ætlað að vera tekjuskapandi heldur þvert á móti átti tekjustofninn að gefa eftir. Markmið skattanna væri að bæta umhverfið og hvetja til umhverfisvænni lausna.

Úr druslu yfir á rafmagnsbíl

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði mikið vera rætt um skattalækkanir. „En á sama tíma er verið að boða hér endalausar álögur, kolefnisgjald, urðunargjald, græna skatta hingað og þangað.“ Hún telur ekki vera hægt að fá það út að skattar muni lækka fyrir lægst setta fólkið í samfélaginu með þeim auknu álagningu sem boðaðar eru.

 „Á hverjum mun það bitna í rauninni að þurfa að borga hækkað kolefnisgjald?“ spurði Inga og svaraði um hæl „Það er fátæku fólki sem keyrir um á gömlu druslunni, varla nógu dekkjuð til að komast áfram í umferðinni. Það eru þeir sem hafa ekki ráð á því, hvorki að endurnýja gamla bílinn eða að kaupa sér rafmagnsbíl.“´

Jákvæðir hvatar mikilvægir

Bjarni sagði að mikilvægt væri að horfa á heildarmyndina og fullvissaði þingsal um að skattalækkun myndi skila sér þrátt fyrir hækkun grænna skatta. „Auðvitað er það ekki þannig að allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar henti öllum landsmönnum,“ bætti Bjarni við. Þá sagði hann ríkisstjórnina vera með það að leiðarljósi að hvetja landsmenn til umhverfisvænni neysluhegðunar.