Inga Sæland, formaður og þingmaður Flokks fólksins, reynir nú í annað sinn að fá fram bann á blóðtöku á fylfullum hryssum. Á frumvarpinu eru allir þingmenn Flokks fólksins og tveir þingmenn úr Vinstrihreyfinguinni - grænt framboð.

Inga hefur lagt fram frumvarp til laga á Alþingi um að bannað verði að taka blóð úr fylfullum hryssum í þeim tilgangi að selja það eða vinna úr því vöru til sölu. „Það er aðeins eitt sem hægt er að gera, það er að banna þetta," segir Inga þegar hún kynnir frumvarpið.

Þorri almennings heyrði í fyrsta sinn í lok nóvember að blóðmerahald væri stundað á Íslandi og í kjölfarið vöknuðu spurningar um tilgang þess að draga blóð úr ótömdum fylfullum hryssum á yfir 100 sveitabæjum á Íslandi.

Ísland er aðeins eitt af fjórum löndum í heiminum þar sem blóðmerahald er stundað. Frjósemislyf er framleitt úr blóði íslenskra hryssa og notað í verksmiðjubúskap erlendis til að auka afkastagetu svína- og kúabúa. Evrópuþing vill stöðva allt blóðmerahald.

Umræðan um velferð hryssa hefur aldrei verið háværari, þrátt fyrir að um sé að ræða 40 ára gamlan iðnað. Ástæðan er 20 mínútna heimildarmynd dýraverndarsamtakanna AWF/TSB (Animal Welfare Foundation/Tierschutzbund Zürich) sem sýnir myndbrot frá blóðtöku úr fylfullum hryssum.

„Ekki hægt að gera þessa aðgerð fallega"

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins, spyr Ingu hvort hún telji líklegt að allir bændur sem stunda blóðmerahald á Íslandi komi eins fram við hryssurnar eins og í myndbandinu fræga.

Inga segist vona ekki en að það sé sama hvernig á málið er litið. „Það er ekki hægt að gera þessa aðgerð fallega,“ segir hún.

„Það er mismikil vanlíðan, ótti og sársauki sem skepnurnar eru að ganga í gegnum og hvort sem það er á mælikvarðanum rosa mikill, pínu mikill eða bara smá, þá er það brot á íslenskum dýravelferðarlögum og algerlega óafsakanleg framkoma og meðferð á fylfullum hryssum,“ segir Inga.

Viðbrögðin hafa verið hörð enda sýnir myndbandið hvernig dýralæknar fylgdust aðgerðalausir með hundum og mönnum níðast á merunum. Verklagið sem sést í myndbandinu virðist ekki tryggja velferð hryssanna og er nú Matvælastofnun með málið til rannsóknar.

Sigmar Guðmundsson, alþingismaður Viðreisnar, kemur einnig inn á blóðmerahald í ræðu sinni þar hann veltir því fyrir sér hvort efla eigi eftirlit með slíkum iðnaði á Íslandi. „Það er mikið talað um að efla eftirlit í stjórnarsáttmálanum en það væri oflof og jafnvel háð að segja að það endurspeglaðist í fjárlagafrumvarpinu,“ segir Sigmar.

Óhugnaleg myndbönd af blóðmerahaldi hafi vakið upp spurningar um slælegt eftirlit á Íslandi, segir Sigmar. „Matvælastofnun hefur sjálf í umsögn til þingsins vottað eigið eftirlit með þessum iðnaði og sagt að þar stangist ekkert á við lög. Myndbandið segir okkur aðra sögu,“ segir hann.

„Ég nefni þetta hér vegna þess að ráðherrar í ríkisstjórninni hafa á stjórnmálaferli sínum talað gegn virku eftirliti og meðal annars sagt galið að forgangsraða í þágu „eftirlitsiðnaðarins“ eins og það var kallað,“ segir Sigmar.