Þetta byrjaði eiginlega allt þannig að ég fór að leika mér með matinn,“ segir myndlistarkonan Inga Höskuldsdóttir. Nú stendur yfir sýning á verkum hennar í Veitingastofum Hannesarholts í Reykjavík, sýningin ber heitið Burtfloginn kjúklingur og teiknaðar kartöflur.
Á sýningunni sýnir Inga ljósmyndir sem hún hefur gert úr matarafskurði. „Ég er fyrst og fremst myndlistarkona en fyrir hálfgerða tilviljun fór ég að vinna í eldhúsi og er alltaf með ruslafötu með afskurði fyrir framan mig,“ segir hún.
„Ég bý til myndverk úr afskurðinum sem kemur til þegar ég er að elda og svo tek ég ljósmyndir af því,“ segir Inga. „Þegar ég er að skræla kartöflur eða rauðrófur, skera utan af melónum eða bara hvað sem er þá nota ég það sem fellur til,“ segir hún.

Inga segir aukna meðvitund um sóun í samfélaginu og að fólk sé farið að huga betur að því að nýta það sem til er. „Undirtónninn í sýningunni er matarsóun, ofgnótt og neysluvenjur okkar mannfólksins en fyrst og fremst er ég að nýta þann efnivið sem hendi er næst, í myndsköpun,“ segir hún. „Það er frábært að nýta þau efni sem til eru á skapandi hátt,“ segir hún. Inga hvorki borðar né eldar kjöt svo verk hennar eru að langmestu leyti úr grænmeti.

Sýningin opnaði síðustu helgi og aðspurð segir Inga fólk hafa tekið vel í myndirnar hennar. „Það eru kannski ekki margir að gera nákvæmlega þetta svo ég hef fengið góðar undirtektir,“ segir hún. „Opnunin var mjög skemmtileg og það var fullt allan tíman svo ég er mjög ánægð,“ bætir hún við.
Sýningin er opin á milli 11.30-16 alla daga nema sunnudaga og mánudaga og stendur til og með 1. febrúar.
