Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagðist hafa gengið með ákveðnum trega inn í sumarfríið eftir þinglok í vor þar sem hún hefði efni á því að njóta þess að vera í sumarfríi. Minnti hún þingmenn og áhorfendur á að ekki væri það raunveruleiki allra landsmanna.

Fátækt var í forgrunni í ræðu Ingu sem sagðist þó sjá vilja til margra góðra verka innan ríkistjórnarinnar, en sagðist ekki vera sammála þeim í forgangsröðun. „Það hefur ekki einn einasti einstaklingur sem hefur staðið hér í kvöld nefnt orðið fátækt. 

Minnti þingmenn á málefni öryrkja

Hvað eru margir landsmenn sem eru að horfa á mig hér núna sem upplifa raunverulega fátækt?“ Spurði Inga. 

„Er þá ekki kominn tími til að opna augun? Eigum við ekki að líta inn á við og spyrja, hverjar eru frumþarfir mannsins? Hverjar eru frumþarfir okkar allra, þjóðarinnar? Íslendinga? Felast þær kannski í því að fylgjast með okkur hér básúna því hvað við erum frábær? nei þær snúast í grunnþörfunum, fæði, klæði og húsnæði.“ 

Þá kom Inga inn á málefni öryrkja og minnti þingmenn og áhorfendur þá á það að engin óskaði eftir því að verða öryrki. 

„Varð ég fyrir slysi? Hvers vegna er ég veikur? Af hverju er ég öryrki? Hvar er hjálpina að finna? Við verðum að átta okkur á því, virðulegi forseti að það biður enginn um að verða öryrki.“

Ekki sömu forréttindi og ríkisbubba börnin

Ingi sagði að þeir landsmenn sem byggu við fátækt væru ekki að biðja um neinn munað. „Engin þeirra biður um að fara í leikhús eða fara út að borða. Ég tala af eigin reynslu. Kannski einu sinni í mánuði var hægt að hafa pítsu. Mín börn nutu ekki sömu forréttinda og ríkisbubba börnin.“

Inga gagnrýndi einnig fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár, þá sérstaklega aðgerðir sem tengjast því að beita skattkerfinu til að koma á jöfnuði. 

„Fátækir geta ekki drukkið áfengi þó það sé selt í ÁTVR, núna get ég  farið að standa í því að fá mér í glas vel og reglulega, ég á efni á því,“ sagði Inga og vitnaði í hækkun áfengis og tóbaks. Hún gagnrýndi einnig tillögur ríkisstjórnar um hækkun persónuafsláttar. „Ég hefði persónulega aldrei staðið hérna í kvöld til að monta mig á fjögurra prósenta hækkun á persónuafslætti.“

Hún lauk þó ræðu sinni á léttari nótunum og kvaðst vita að veturinn yrði góður. 

„Kæru landsmenn hafiði það frábært, við eigum eftir að hafa það gott í vetur.“