Inga Sæ­land for­maður Flokk fólksins gat ekki haldið aftur af tárunum er hún ræddi ein­greiðslur til ör­yrkja á Al­þingi í dag. Á­ætlað er að Al­þingi muni sam­þykkja 60 þúsund króna ein­greiðslu til ör­yrkja sem mun greiðast út fyrir 31. desember.

Inga sagðist á­nægð með þá á­kvörðun en furðaði sig á því af hverju væri verið að skilja eftir al­manna­trygginga­þegum sem ekki síður þurfa á þessari ein­greiðslu um jólin. „Ég tala hér um eldra fólk sem býr í sárri neyð og voru ör­yrkjar áður,“ sagði Inga en fólk telst ekki lengur ör­yrkjar eftir 67 ára aldur.

Inga opnaði sig síðan og sagði frá eigin reynslu af fá­tækt er hún var í þeirri stöðu að eiga ekki efni á jóla­mat en Inga Sæ­land var ör­yrki áður en hún var kjörin á þing

„Ég hef alltaf verið mikið jóla­barn en það var ömur­legt á þessum tíma að sjá fram á það að ég gat ekki boðið upp á neitt öðru­vísi en það sem ég átti i kistunni,“ sagði Inga. „Ég átti enga peninga. Ég var búin að borga leiguna það var alltaf það fyrsta sem ég borgaði,“ bætti hún við.

„En ég var lán­söm að því leyti til að einn af mínum yndis­legu sonum sem kom í heim­sókn til pabba og mömmu. Hann rétti mér 60 þúsund krónur og sagði mamma ég vil fá að bjóða okkur í mat um jólin. „Það var í rauninni erfitt að þiggja það Ekki að ræða það. Ég á nóg af peningum og þið ekki. Ég vil fá að bjóða ykkur í mat um jólin. Þið hafið fætt mig og klætt fram að þessu og nú er komið að mér,“ sagði Inga og byrjaði að klökkna.

„Ég á ekki að tala um dæmi­sögur. Þá fer ég alltaf í ein­hverja sorg,“ sagði Inga og þerraði tárin úr augunum.

„Svo eru það líka ömmur og afar. Sára fá­tækt fólk sem biður aldrei um neitt. Þau eru lítil­lát og biðja aldrei um neitt. Þau treysta sér ekki einu sinni til að leita sér hjálpar í hjálpar­stofnunum,“ sagði Inga. Hún sagði dæmi­sögu af eldri hjónum sem þurfa að greiða 900 þúsund krónur til að laga tennurnar í konunni. „Hún er búin að þurfa að fara í að­gerð og allt. Við eigum ekki þessa peninga,“ sagði eigin­maðurinn við Ingu að hennar sögn.

Inga Sæland þerrar tárin á Alþingi í dag.
Fréttablaðið/skjáskot

Inga lagði til breytingar­til­lögu þar sem ein­greiðslan myndi ná einnig til þeirra sem væru eldri en 75 ára. Þannig að 6000 elli­líf­eyris­þegar myndu fá ein­greiðslu fyrir 31. desember 2022.

„Ég bara get ekki talað lengur. Ég er orðin svo sorg­mædd yfir þessu öllu. Ég skil ekki af hverju við látum svona. Af hverju við erum ekki góð við þá sem eiga bágt og eru að biðja okkur um að hjálpa sér. Kusu okkur á þing til að hjálpa sér,“ sagði Inga og bætti við að henni fannst þetta ó­skiljan­legt áður en hún lauk máli sínu.

Fréttin hefur verið leiðrétt. Fyrst stóð að fólk sé ekki lengur skráð öryrkjar eftir 75 ára aldur en það er 67 ára aldur.