Íslenska iðnfyrirtækið Arctus Aluminium er komið í tíu fyrirtækja úrslit í keppninni Nordic CleanTec Open um umhverfisvænustu og áhugaverðustu fyrirtæki Evrópu, en 150 fyrirtækjum var upphaflega boðið að taka þátt í keppninni.

„Þetta er afar jákvætt fyrir okkur og verkefni okkar,“ segir Jón Hjaltalín Magnússon, verkfræðingur og framkvæmdastjóri fyrirtækisins, en það hefur undanfarið unnið að umfangsmiklu evrópsku rannsóknarverkefni sem byggir á sjálfbærri nýtingu áls sem orkugjafa til húshitunar.

Verkefnið hlaut nýlega verulegan fjárstyrk frá Rannsóknasjóði Evrópusambandsins og Tækniþróunarsjóði Sviss og nemur hann hálfum milljarði króna.