Fyrsta inflúensusmitið hefur verið staðfest að sögn Ragnheiðar Óskar Erlendsdóttur, stjórnanda Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.

„Við fréttum af því í morgun á fundi með sóttvarnarlækni. Þannig að það er allavega staðfest fyrsta inflúensusmitið,“ segir Ragnheiður Ósk.

Ragnheiður Ósk segir að undanfarið hafi dregið aðeins úr þátttöku í inflúensu bólusetningu. Hún sé hins vegar bjartsýn á að fólk drífi sig í bólusetningu nú þegar fyrsta smitið hefur verið staðfest. „Það gerir það oft, kemur smá kippur þegar fyrsta tilfellið kemur.“

Aðspurð hvort enn sé nóg til af bóluefni segir Ragnheiður Ósk svo vera. „Það á að vera nóg til af bóluefni í landinu, bæði hjá heilsugæslustöðvum og nú einnig hjá einkaaðilum,“ segir hún.

Greint var frá því um miðjan nóvember að mikið væri um öndunarfærasýkingar en að inflúensan væri ekki komin.

Forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu hvatti þá fólk til að fara í bólusetningu gegn árlegu inflúensunni. „Það getur sparað fólki ýmis­legt að sleppa við inflúensuna sem getur valdið því að fólks sé mikið lasið með háan í hita jafn­vel í heila viku,“ sagði hann jafnframt.