Infinity, lúxusbílamerki Nissan, verður dregið af markaði í vesturhluta Evrópu frá og með fyrri hluta árs 2020. Infinity ætlar líka að hætta framleiðslu á Q30 og QX30 bílum sínum í verksmiðju Nissan í Sunderland í Bretlandi og mun sú framleiðsla taka enda um mitt næsta ár. Nissan er vandi á höndum að tryggja núverandi og tilvonandi Infinity bílaeigendum viðeigandi viðgerða- og ábyrgðrþjónustu fyrir bíla sína og að því er unnið. Einnig eru starfsmannamál á sölu og þjónustustöðum Infinity í V-Evrópu eitthvað sem þarf að greiða úr líka. 

Infinity greindi frá því í leiðinni að fyrirtækið ætli að rafmagnsvæða alla sína bíla frá og með árinu 2021 og hætta framleiðslu allra dísilbíla. Einnig stendur til að leggja áherslu á framleiðslu jepplinga og jeppa og minni áherslu á framleiðslu hefðbundinna fólksbíla. Þá verður höfuðáhersla lögð á Bandaríkjamarkað, sem og Kína þar sem til stendur að bæta við 5 nýjum bílgerðum á næstu 5 árum.