Ineos er í samtarfi við Magna um hönnun og framleiðslu Grenadier, en Magna smíðar meðal annars G-línuna fyrir Mercedes og I-Pace fyrir Jagúar. Vélarnar verða sex strokka, bæði dísil- og bensínvélar og koma frá BMW en sjálfskiptingarnar frá ZF. Þótt búið sé að frumsýna bílinn mun hann ekki koma í sölu fyrr en 2022. Framundan eru prófanir á nýja bílnum en að sögn hönnuða Ineos verða eknir tvær milljónir kílómetra við alls konar aðstæður til að prófa bílinn. Kannski munum við sjá Radcliffe á slíkum bíl hér á Íslandi, hver veit?

Grenadier er mjög líkur gamla Defender jeppanum í útliti en er mjög svipaður G-línu Mercedes í stærðum. Hann verður rúmgóður og þar sem að afturhleri er tvískiptur verður hægt að koma fyrir einni Europallettu í farangursrýminu. Ekki er búið að sýna innanrými bílsins en að sögn hönnuða verður hún mjög nýtískuleg og tæknilega fullkomin. Búast má við að bíllinn kosti yfir 8 milljónum króna í Bretlandi í grunninn. Þegar hefur verið tilkynnt að von sé á pallbílsútgáfu og einnig er verið að þróa vetnisknúna rafútgáfu.

Farangursrýmið á að taka eina Euro-pallettu, hvorki meira né minna.