Ind­versk dag­blöð frá árinu 1966 fundust á Mont Blanc í frönsku Ölpunum í síðustu viku. Dag­blöðin eru talin vera úr Air India flugi frá 24. janúar 1966. Flug­vélin hrapaði í Ölpunum og létust allir 106 far­þegar vélarinnar og 11 á­hafna­með­limir.

Um er að ræða fjöl­mörg dag­blöð meðal annars frá National Herald og the Economic Times. Dag­blöðin eru talin hafa verið frosin undir jöklinum á Mont Blanc frá árinu 1966 en þau eru að líta dagsins ljós núna þar sem jökulinn er að bráðna.

For­síðu­fréttin á National Herald er um sögu­lega kosningu Indira Gandhi sem er fyrsta og eina konan til að gegna em­bætti for­sætis­ráð­herra Ind­lands.

Flug­vélin var á leið frá Mumbai í Ind­landi til Lundúna. Á leið sinni til Bret­lands milli­lenti vélin í Delhi og Beirút og átti síðan eftir að milli­lenda í Genf í Sviss. Á leiðinni til Sviss hins vegar hrapaði vélin yfir frönsku Ölpunum.

Timothee Mottin, sem rekur veitingastað í Ölpunum, fann dagblöðin.
Ljósmynd/AFP

Ti­mot­hee Mottin, sem rekur veitinga­stað ná­lægt Chamonix skíða­svæðinu, fann dag­blöðin. Hann segir í sam­tali við AFP-frétta­veituna að dag­blöðin séu í góðu standi en hann hefur tekið það að sér að þurrka þau.

Þegar dagblöðin hafa þornað ætlar Mottin að hengja þau upp til sýnis á veitinga­staðnum sínum en hann hefur safnað munum úr flug­slysinu í um ára­bil.

Fjöl­margir verð­mætir munir hafa fundist úr flug­slysinu í Ölpunum í gegnum tíðina. Árið 2013 fannst kassi sem var fullur af eðal­steinum sem voru verð­metnir á bilinu 20 til 40 milljónir ís­lenskra króna.

Hækkandi hita­stig í Ölpunum á síðustu árum hefur valdið því að jöklar eru að bráðna og hafa því fleiri munir úr flug­slysinu verið að líta dagsins ljós.