Hinn sautján ára gamli Mack Rutherford lenti á Reykjavíkurflugvelli í gær. Hann er að reyna að slá heimsmet systur sinnar, Zöru, sem yngsti flugmaðurinn sem flýgur kringum jörðina á fisvél.

„Mér líður mjög vel. Ég er að klára Atlantshafið og það er stórt skref,“ sagði hinn bresk-belgíski ofurhugi og var nokkuð kátur.

Blaðamenn máttu hins vegar bíða nokkuð eftir stráksa því að hann nýtti tækifærið og hringsólaði yfir gosstöðvunum í Meradölum fyrir lendingu. „Ég lenti í svolitlum skýjum við eldgosið en mér tókst loksins að sjá eldgosið. Það var mjög indælt,“ sagði hann.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær lagði Rutherford af stað í heimsreisuna frá Sófíu, höfuðborg Búlgaríu, í mars. En þaðan er styrktaraðili hans. Rutherford tafðist á Arabíu-skaga vegna leyfamála en áætlar að ljúka ferðinni í næstu viku.

Vélin er afar smá af gerðinni Shark Aero Shark UL frá Slóvakíu. Hún er afar fullkomin, með vænghaf upp á tæpa 8 metra, 100 lítra tank og hámarkshraða upp á 300 kílómetra á klukkustund. Systir hans, Zara, flaug sams konar vél þegar hún setti heimsmet sitt í fyrra.

„Ég get ekki bent á einn hápunkt heldur hafa þeir verið margir,“ sagði Rutherford, aðspurður um hvað stæði upp úr. En hann hefur ekki flogið beina leið heldur lagt lykkjur á hana til Madagaskar, Mexíkó og fleiri staða.

Sá leggur sem Rutherford kláraði í gær var frá Narssarssuaq á suðurhluta Grænlands.

„Það var ótrúlega gaman að fljúga yfir Afríku, Suðaustur-Asíu, Japan og stóru borgirnar í Bandaríkjunum. Grænland var líka rosalegt,“ sagði hann.

Rutherford hefur lent í ýmsum hikstum á leið sinni. Hann var þó ekki endilega á þeirri skoðun að hafa nokkurn tímann verið í hættu.

„Það fer eftir því hvað þú skilgreinir sem hættu,“ sagði Rutherford. „Ég hef nokkrum sinnum lent í stressandi aðstæðum í ferðinni. Til dæmis var þessi leggur til Íslands erfiður því það var lágskýjað og úrhellisrigning yfir Atlantshafinu. Margt til að vara sig á.“

En foreldrarnir, eru þeir ánægðir? „Þau voru hikandi í byrjun. En síðan sættust þau við þetta og styðja mig fullkomlega.“

Hvað skyldi taka við þegar þessu ævintýri lýkur? Rutherford segist ekki útiloka að reyna við önnur heimsmet í framtíðinni en fyrst tekur alvara lífsins við.

„Þegar þessu lýkur ætla ég heim að klára skólann. Ég þarf að vinna upp tímann sem ég hef misst úr námi,“ sagði Rutherford. „Ég stefni á háskólanám í framtíðinni en ég ætla ekki að hætta að fljúga. Mér finnst líklegt að ég verði atvinnuflugmaður.“