Samninga­nefnd iðnaðar­manna hefur slitið við­ræðum við Sam­tök at­vinnu­lífsins um nýja kjara­samninga. Fundi samninga­nefnda begga aðila lauk í húsa­kynnum ríkis­sátta­semjara í morgun án þess að samningar næðust. 

Fé­lög iðnaðar­manna hafa verið í sam­floti í kjara­við­ræðunum sem staðið hafa yfir að undan­förnu. Alls eru 16 þúsund manns innan fé­laganna sem nú fylgja í fót­spor Starfs­greina­sam­bandsins, Eflingar, VR, Verka­lýðs­fé­lags Akra­ness og Verka­lýðs­fé­lags Grinda­víkur sem slitið hafa við­ræðum við SA. 

Kristján Þórður Snæ­bjarnar­son, for­maður Raf­iðnaðar­sam­bands Ís­lands, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að samninga­nefndirnar hafi verið strand þegar á­kveðið var að slíta við­ræðum. Margt já­kvætt hafi á­unnist í við­ræðunum en SA reynst föst fyrir í á­kveðnum at­riðum. 

Hann segir að verið sé að „ýta“ iðnaðar­mönnum út í við­ræðuslit með slíku og segir að nú taki við vinna í bak­landinu við að fá heimild um at­kvæða­greiðslur til verk­falla. Ó­tíma­bært sé að segja til um hve­nær slíkt færi í gagnið, fari svo að að­gerðirnar verði sam­þykktar. 

Í milli­tíðinni vonist iðnaðar­menn til þess að SA komi að borðinu að nýju og verði við kröfunum. „Við vonum að Sam­tök at­vinnu­lífsins muni koma að borðinu og við getum farið að ræða mál­efnin dýpra sem strandað var á,“ segir Kristján.