Við hugsum núna bara um að halda heilsunni og förum einungis út á svalir. Fáum allar vörur sendar heim að dyrum og þvoum þær og sprittum þegar við tökum þær upp. Maður ímyndar sér að íbúðin sé eins og geimskip, þar komi ekkert inn sem getur skapað ójafnvægi. Þetta er voða skrítinn tími,“ segir Stefán Ragnar Höskuldsson sem býr í Chicago með konu sinni Natalie og börnum þeirra, Alexander Stefánssyni þriggja ára og Veru Stefánsdóttur sem er ellefu mánaða. „Mér datt í hug að fljúga heim með fólkið mitt í byrjun ástandsins en Ísland er ekki laust við COVID-19 heldur.“

Stefán Ragnar er sólóflautuleikari hinnar heimsþekktu sinfóníuhljómsveitar Chicagoborgar en segir starfsemi sveitarinnar liggja niðri núna og óvíst hvenær hún hefjist aftur, enda samkomubann í gildi. Hann er samt ekki iðjulaus því hann kennir flautuleik gegnum netið. „Ég kenni alltaf dálítið mikið og hef ofsalega gaman af því. Hef haft góða kennara sjálfur og lít til þeirra sem ég lærði hjá. Núna er ég með þrjá nemendur. Nota app sem heitir Zoom vídeó sem er aðeins fullkomnara en Skype. Svo reyni ég að æfa mig líka og halda mér í formi því starfið mitt útheimtir einbeitingu og elju.“

Natalie er sjálfstætt starfandi fagottleikari og Stefán Ragnar segir bæði börnin þeirra greinilega hafa gaman af músík. „Alexander er ekki búinn að velja hljóðfæri en er alltaf að hlusta á eitthvað. Hann á fiðlu og hefur mjög gaman af henni og Vera dillar sér við tónlist.“

Fær borgað allan tímann

Það var árið 2016 sem Stefán Ragnar hóf leik á fyrstu flautu í Chicago-sinfóníunni, þegar hann flutti sig úr sömu stöðu frá Metropolitan-hljómsveitinni í New York. Hann segir það að mörgu leyti hafa verið skref upp á við. „Í óperuhljómsveit er maður að spila undir hjá söngvurum. Maður fær jú sólótækifæri en ekkert í líkingu við þau sem boðið er upp á hjá sinfóníuhljómsveit þar sem þau eru mörg ofsalega flott og þar leggur maður meira til persónulega. Ég hef spilað mörg falleg og skemmtileg óperuverk og það er sérstakt að fá líka tækifæri til að spila sinfóníutónlist.“

Hann viðurkennir þó að það vori fyrr í New York. „Hér í Chicago er oft kalt fram í lok maí, við erum svo norðarlega. Síðustu daga höfum við samt getað notið útivistar á svölunum og það hefur verið góð tilbreyting frá inniverunni!“ Stefán Ragnar kveðst hafa verið á fullum launum hjá Chicago-sinfóníunni fram að páskum og síðan skertum. „Chicago-sinfónían hefur ákveðinn sess innan menningargeirans í Norður-Ameríku og orðspor hennar er einstakt. Hún hóf feril sinn 1891 og hann hefur verið farsæll, enda hefur sveitin haft úrvalsstjórnendur, eins og Fritz Reiner, Georg Solti og Daniel Barenboim, núna er það Riccardo Muti.“

„Frá því ég var níu ára keyrði pabbi mig mánaðarlega frá Reyðarfirði til Reykjavíkur í nokkur ár svo ég gæti lært hjá Bernharði Wilkinson, einum besta flautuleikara landsins á þeim tíma,“

Nördaskapurinn skilaði miklu

Stefán Ragnar er fæddur í Neskaupstað en flutti á Reyðarfjörð með fjölskyldu sinni átta ára gamall. Flautunni segist hann hafa kynnst gegnum frænku sína í Neskaupstað, Hildi Þórðardóttur. „Hildur tók mig í fyrsta flaututímann og þeir urðu f leiri. Ég náði góðum tóni og féll fyrir flautunni. Eftir það kom ekkert annað hljóðfæri til greina hjá mér, þó ég prófaði fleiri. Þetta var byrjunin á ævintýrinu.“

Velgengni sína í tónlistinni telur hann því að þakka að hann hafi verið duglegur að æfa sig sem strákur og natinn við það sem hann var að gera. „Svo fékk ég geysilegan stuðning hjá foreldrum mínum, Höskuldi Stefánssyni og Höllu Valgerði Stefánsdóttur. Frá því ég var níu ára keyrði pabbi mig mánaðarlega frá Reyðarfirði til Reykjavíkur í nokkur ár svo ég gæti lært hjá Bernharði Wilkinson, einum besta flautuleikara landsins á þeim tíma,“ lýsir Stefán Ragnar og hlær þegar hann er spurður hvort það hafi ekki þótt mikið dekur í hans heimabæ. „Örugglega, en ég varð aldrei fyrir aðkasti út af því. Ég var auðvitað óttalegt nörd og svolítið út af fyrir mig en sá nördaskapur skilaði mér miklu. Sé alltaf betur og betur hvað Benni gaf mér mikið, hann byrjaði svo snemma að kenna mér ótrúlega góða hluti, ekki bara á flautu, hann kenndi mér hljómfræði, tónfræði, sögu – hann kenndi mér allt. Þegar ég kom í Tónlistarskólann í Reykjavík árið 1991 var ég mjög vel skólaður, búinn að vera í einkatímum hjá Benna.

Pabbi var með húsgagnaverslun á Reyðarfirði og gat notað Reykjavíkurferðirnar til ýmissa erinda í sambandi við þann rekstur.“

Eftir Tónlistarskólann í Reykjavík hélt Stefán Ragnar til Manchester í framhaldsnám í Royal Northern College of Music. „Ég bjó í London í nokkur ár eftir dvölina í Manchester og var þar í einkatímum. Var svona að leita fyrir mér í Englandi en það gekk ekki alveg eins og ég vildi,“ lýsir hann. „Svo urðu persónulegar kringumstæður til þess að ég fór til New York og þar var eins og opnuðust dyr fyrir mér, ég hitti fólk sem hvatti mig áfram þannig að ég fór að prufuspila árið 2003 og ári seinna var ég tekinn inn í Metropolitan.“

Stefán Ragnar segir tónlistarbakteríuna úr báðum ættum.
Mynd/© Todd Rosenberg Photography

Ógleymanlegir tónleikar

Stefán Ragnar segir tónlistarbakteríuna úr báðum ættum. „Pabbi spilaði á ýmis hljóðfæri, hann var organisti og kórstjóri í kirkjunni í Neskaupstað og stjórnaði lúðrasveitinni þar og mamma er líka mjög músíkölsk.

Músíkkúltúrinn fyrir austan tengdist líka félagsheimilinu Egilsbúð sem pabbi rak um tíma. Þangað komu snillingar eins og Vladimir Ashkenazy og hljómsveitir, meðal annars Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þá var ég svona sjö ára og það er mér ógleymanlegt,“ segir hann og kveðst oft hafa spilað konserta með þeirri sveit á seinni árum og það sé alltaf gaman. „Mér þykir mjög vænt um Sinfóníuhljómsveit Íslands, hún er líka að gera svo frábæra hluti.“

Ekki býst Stefán Ragnar við að vera á heimleið á næstunni. „Ég vildi samt óska þess,“ segir hann með áherslu. Við Natalie höfum komið til Íslands árlega í tíu ár og vorum búin að stefna að því að koma heim í ágúst í sumar, það verður að koma í ljós hvort það verður hægt en við erum skíthrædd við að fara í flugvélar núna. Maður verður að taka lífinu með ró meðan þessi farsótt gengur yfir.“