Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, birti í dag bréf á heimasíðu sinni þar sem þeirri spurningu er varpað fram hvort að flokksmenn annarra flokka, vinstriflokka, hefðu fengið sömu meðferð og hann og flokksfólk hans í Miðflokknum eftir að upptökur af þeim að níðast á samstarfsfólki sínu og ýmsum samfélagshópum á Klaustur Bar voru birtar almenningi og fjallað um víða í fréttum.

Þar er spurt „Getur verið að nú til dags ráðist túlkun á því sem er sagt og gert fyrst og fremst af því hverjir eiga í hlut?“

Tvö ímynduð dæmi

Sett eru upp í bréfinu upp tvö ímynduð dæmi.

Í því fyrra fara sex þingmenn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs á veitingahús þar sem sumir drekka „meiri bjór en góðu hófi gegnir.“

Lesendur geta væntanlega ímyndað sér hvað gerist næst.

„Eftir langar samræður um stjórnmál almennt þróast umræður í samsæti stjórnmálamannanna út í tal um samstarfsmenn þar sem lofgjörð um pólitíska andstæðinga er ekki ríkjandi þema. Sumir endurtaka gamlar lummur sem þeir hafa heyrt í þinginu eins og þau kunnu sannindi að formaður Miðflokksins sé geðveikur, sumir fara langt fram úr sér í samkeppni um grófasta orðavalið og aðrir fylgjast með“ segir í bréfinu.

Því er svo lýst hvernig það kemur síðar í ljós að ungur frjálshyggjumaður hafi ákveðið að njósna um sexmenningana og gert ólöglega upptöku af samtali þeirra, sem hann svo fær að birta á vefmiðli sem í ímyndaða dæmi er mjög hægrisinnaður.

Síðan er lýst atburðarrás sem fer af stað í samfélaginu í kjölfar þess að allir aðrir miðlar fjalli um málið.

Forseti þings harmar að samtöl þingmanna séu tekin upp

Í seinna dæminu birtir aðeins einn miðill upptökurnar og að umræður í kjölfar málsins snúist minna um innihald þeirra, heldur „að aldrei fyrr í íslenskri stjórnmálasögu hafi öðrum eins aðferðum verið beitt. Tekin eru viðtöl við kunna álitsgjafa sem rifja upp sögur af því sem þeir kalla skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins en láta þó fylgja sögunni að jafnvel í þá tíð hafi menn ekki beitt svo óheiðarlegum brögðum. Þetta sýni að nú svífist Sjálfstæðismenn einskis vegna þess að þeir sjái ofsjónum yfir auknum stuðningi við þá flokka sem njósnað var um.“

Þá er því lýst hvernig forseti þings harmi að samtöl þingmanna sé hljóðrituð með ólögmætum hætti og að þingið þurfi að bregðast við því.

Samtölin séu þó komin í dreifingu og að vegna þess boði RÚV til sérstakrar umræðu um þá „hættu sem stafar af því að óprúttnir aðilar nýti sér nýjustu tækni til að brjóta grundvallar mannréttindi fólks. Sú þróun sé ógn við lýðræðið og um leið stjórnarskrárvarin réttindi almennings.“

Í bréfinu eru einnig settar upp ímyndaðar aðstæður þar sem Heimdellingurinn er gerður tortryggilegur og að fólk krefjist þess að hann verði sóttur til saka. 

Að lokum segir í bréfinu: 

„Leiddir eru fram sérfræðingar til að útskýra að atburðurinn kalli á aðgerðir svo það verði ekki reglan að mannréttindi fólks séu brotin með persónunjósnum. Rannsaka þurfi málið enda séu vísbendingar um að fleiri hafi komið við sögu. Það þurfi að verja réttarríkið.“

Hægt er að lesa bréfið, sem er mjög ítarlegt, í heild sinni hér.

Fréttin hefur verið leiðrétt. Fyrst var greint frá því að Sigmundur hafi skrifað bréfið. Það er ekki rétt. Ekki er tekið fram á síðunni hver ritar pistilinn, en við upphaf hans segir: 

Í neðangreindum pistli sem ég fékk að birta hér á síðunni er spurningunni sem birtist í fyrirsögn velt upp út frá ímynduðum aðstæðum og atburðarás. Ég myndi e.t.v. setja fram einn eða tvo fyrirvara við þetta en það má bíða. Í bili læt ég nægja að segja bestu þakkir,“ segir Sigmundur áður en hann birtir bréfið sjálft.