Valkostirnir um framtíð blóðmerahalds sem starfshópur hefur gefið Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra eru í meginatriðum tveir, að leyfa starfsemina áfram en á breyttum forsendum eða að banna hana.

Ef banna á blóðmerahald telur starfshópurinn að ímynd íslenska hestsins hafi meira vægi en dýravelferð í ákvarðanatöku. Ef það yrði gert á grundvelli dýravelferðar þyrfti auk þess að líta til jafnræðis milli mismunandi dýrahalds í atvinnuskyni. Ekki sé hægt að banna blóðmerahald á grundvelli núgildandi dýravelferðalaga.

„Með því er á engan hátt dregið úr alvarleika þeirra atvika sem koma fram í myndbandi AWF/TSB og er alveg ljóst að slík meðferð er bönnuð á grundvelli gildandi laga,“ segir í skýrslu starfshópsins sem tekur fram að ef banna eigi starfsemina á grundvelli dýravelferðar þyrfti einnig að líta til jafnræðis milli mismunandi dýrahalds í atvinnuskyni.

Erfitt að mæla áhrif á ímynd íslenska hestsins

Hægt væri að banna blóðmerahald vegna óbeinna efnahagslegra hagsmuna eins og vegna ímyndar íslenska hestsins og hugsanlegra neikvæðra áhrifa á hestatengda starfsemi í landinu. Erfitt sé að mæla slík áhrif.

„Slík sjónarmið kunna að falla undir skilyrðið um að almannahagsmunir krefjist þess að starfsemi þessi verði bönnuð en slík ákvörðun verður að auki að samrýmast þeim kröfum sem gerðar eru til skerðingar á stjórnarskrárvörðum réttindum.“

Svandís Svavarsdóttir setur nýja reglugerð sem gerir blóðmerahald leyfisskylt á ný.
Fréttablaðið/Valli

Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá hafa hrossaeigendur víða um Evrópu og Bandaríkin fordæmt blóðmerahald á Íslandi eftir að myndband erlendra dýraverndarsamtaka, sem sýndi dýraníð við blóðtöku, birtist í fjölmiðlum.

„Ég fékk svolítið mikið af skilaboðum frá fólki sem sagðist aldrei ætla að koma til Íslands meðan þetta er enn í gangi,“ sagði Jelena Ohm, verkefnastjóri Horses of Iceland, í samtali við Fréttablaðið í desember í fyrra.

„Fullt af fólki ætlar að sniðganga allt íslenskt þangað til þetta stoppar,“ sagði Sigrún Brynjarsdóttir, hrossaeigandi sem býr í Bandaríkjunum.

„Dýr í þauleldi búa sjaldan eða aldrei við þær aðstæður sem alþjóðleg viðmið um velferð dýra miða við, t.a.m. geta slík dýr sjaldan eða aldrei sýnt sitt náttúrulega eðli.“

Blóðmerahald ekki réttlætt af markmiðum blóðtökunnar

Starfshópur ráðherra segir að blóðmerahald verði ekki réttlætt af markmiðum blóðtökunnar heldur út frá tekjusköpun.

Starfshópurinn skilaði af sér skýrslu í gær og Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra tók ákvörðun um að leyfa blóðmerahald áfram næstu þrjú árin með breyttum skilyrðum. Á þessum þremur árum verður starfsemin undir smásjá og verður svo ákvörðun tekin um framtíð þess. Ný reglugerð mun taka gildi sem gerir starfsemina leyfisskylda á ný.

Ís­lands­stofa segir blóð­mera­hald harðan skell fyrir í­mynd landsins.
Fréttablaðið/Getty images

Starfshópurinn ræddi tilgang blóðtökunnar en blóð úr fylfullum hryssum er fyrst og fremst tekið til þess að framleiða hráefni í frjósemislyf sem notað er verksmiðjubúskapi erlendis.

„Dýr í þauleldi búa sjaldan eða aldrei við þær aðstæður sem alþjóðleg viðmið um velferð dýra miða við, t.a.m. geta slík dýr sjaldan eða aldrei sýnt sitt náttúrulega eðli,“ segir í skýrslunni en starfshópurinn segir að af þessu megi draga þá álytkun að blóðmerahald verði ekki réttlætt af markmiðum blóðtökunnar „heldur verður hún að réttlætast á eigin forsendum, sem dýrahald í atvinnuskyni sem skapar eigandanum tekjur.“