Leikkonan góðkunna Ilmur Kristjánsdóttir segir að viðbrögðin við færslu sinni á Facebook um að rífa lestrarpróf sem sonur hennar átti að taka sanna að þarna sé stærra vandamál en fólk geri sér grein fyrir þegar hún ræddi málið í Fréttavaktinni á Hringbraut.

„Ég greinilega stakk á eitthvað kýli sem er búið að vera að vaxa. Ég hef áður vakið athygli á þessu, þegar dóttir mín var að taka þessi próf en ég fékk miklu meiri viðbrögð núna. Það eru allir rosalega tilbúnir í að þetta sé búið,“ segir Ilmur um færsluna sem lesa má hér fyrir neðan.

Leikkonan segir að hún skilji ekki alveg hvernig slíkt próf eigi að nýtast krökkum og telur að þetta sé að draga úr aðdráttarafli þess að lesa bækur.

„Kannski er þetta eitthvað tól sem þeim finnst nýtast, án þess að ég viti hvernig þetta eigi að nýtast einhverjum. Við erum að taka allt gamanið úr því að lesa og njóta lestur og bókmennta. Það er búið að steingelda þetta,“ segir Ilmur hreinskilin og heldur áfram:

„Við erum bara með skeiðklukku að lesa orð á mínútu. Jújú, við erum prófuð í því hvort að við skiljum textann en það er ekkert kannað hvort að við höfum gaman af því eða hvernig við flytjum hann. Þetta er orðið svo boring. Þetta dregur úr áhuga og er letjandi.“

Hún nefnir að sonur sinn hafi nýlega tekið framförum í lestri en samkvæmt mælikvörðunum sé hann ekki að standa sig í stykkinu.

„Þessvegna var ég svona dramatísk og brjáluð. Ég var nýbúin að hrósa honum, enda kominn á næsta stig í lestrinum og farinn að geta talað af tilfinningu. Þegar ég hlusta á hann lesa texta er hann að koma sjálfum sér á óvart. Svo kemur hann heim með þetta, með ákveðna skömm í líkamanum.“