Illa gengur að fella vindmyllu í Þykkvabæ sem eyðilagðist í bruna á nýársdag. Gerðar hafa verið þrjár tilraunir til að fella hana með sprengiefni, án árangurs. Nú stendur yfir undirbúningur fyrir fjórðu tilraunina af hálfu sprengjusveitar Landhelgisgæslunnar og sér lögreglan um öryggisgæslu á svæðinu.
Um er að ræða stærðarinnar vindmyllu en hún er 60 metrar að hæð og tugir tonna að þyngd.
Vindmyllan var í eigu Biokraft, sem fór á hausinn árið 2019, og var gangsett árið 2014 í Þykkvabæ. Þangað var hún flutt frá Þýskalandi. Önnur vindmylla var einnig sett upp en hún brann í eldsvoða árið 2017 og ekki verið nothæf síðan.
Fyrirtækið Háblær á nú vindmyllurnar og segir Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður Háblæs, í samtali við Vísi að fella þurfi mylluna til að tryggja að ekki verið slys af henni.
Uppfært kl. 18:00
Fjórða tilraunin til að fella vindmylluna tókst ekki. Nú er verið að undirbúa þá fimmtu.