Miðað við nýjar og gamlar úttektir á vistheimilum fyrir fatlaða er hægt að ganga út frá því að ill meðferð hafi ekki verið staðbundin við einstakar stofnanir.

Þetta segir Þórdís Ingadóttir, lögfræðingur og prófessor við Háskólann í Reykjavík og formaður starfshóps sem skoðaði vistheimili og fleiri stofnanir á árum áður. Hún verður gestur á Fréttavaktinni í kvöld á Hringbraut.

Sterkar vísbendingar eru um að fatlað fólk hafi sætt illri meðferð á stofnunum og mikilvægt að slíkt sé dregið fram í dagsljósið samkvæmt skýrslu starfshóps um undirbúning rannsóknar á aðbúnaði og meðferð fullorðins fólks með þroskahömlun og fólks með geðrænan vanda.

„Við teljum afar mikilvægt að fatlað fólk hafi mjög sterka þátttöku í þessu.“

Þórdís bendir á að í skýrslu um Kópavogsheimili, sem einskorðaðist við börn, sé ályktað að hið sama gæti átt við um fullorðna sem voru hjá sömu stofnun. Starfshópurinn leggur til að Alþingi skipi rannsóknarnefnd sem hafi ítarlegar heimildir og að fulltrúar skjólstæðing komi að framhaldinu.

„Við viljum að þessi rannsókn beinist að einstaklingunum og þeirra reynslu. Það sé ekki bundið við ákveðnar stofnanir. Við teljum afar mikilvægt að fatlað fólk hafi mjög sterka þátttöku í þessu, bæði sem hlut af nefndinni og að markvissar aðgerðir séu til að hjálpa fólki að nálgast þá nefnd.“