Að setja saman Billy- hillu eða Ektorp-sófa getur verið skemmtilegt púsluspil fyrir suma en andleg þrekraun fyrir aðra.Samkvæmt nýrri greiningu breska miðilsins Houshold Quotes eiga Íslendingar langerfiðast með að setja saman IKEA-húsgögn og láta pirring sinn í ljós á samfélagsmiðlum.

Greiningin var gerð með því að skoða orðalag streitu á samfélagsmiðlapóstum merktum IKEA í hverju landi. 64 prósent íslenskra pósta innihéldu orðalag sem bentu til streitu.Í öðru sæti lentu Ísraelsmenn með 50 prósent en flestar þjóðir voru með á bilinu 20 til 30 prósent stress.

Í Svíþjóð, heimalandi IKEA, mældist tæplega 38 prósenta stress en lægst mældist það í Suður-Kóreu, aðeins tæplega 8 prósent.Greiningin náði ekki til þeirra landa þar sem engin IKEA-búð er til staðar. Einnig voru Bandaríkin greind eftir fylkjum. Hafnaði Mississippi efst á stresskvarðanum með tæplega 49 prósent en Kansasbúar voru rólegastir með 24.

Karlar skrifa almennt mun meira um IKEA á samfélagsmiðlum en konur og því eru flestir gremjupóstarnir frá þeim. Er konur pósta um IKEA er stresshlutfallið hins vegar ögn hærra en karla, eða 2 prósentustig.Sófar eru þau húsgögn sem fólk sýndi mestu stressviðbrögðin við að setja saman. Rétt rúmlega helmingur lét gremju sína í ljós á samfélagsmiðlum við að setja saman sófa.

Ekki langt á eftir eru stórir stofuskápar, náttborð og vöggur. Auðveldara virðist að setja saman litla skápa, hægindastóla og skrifborð.Þrátt fyrir að Íslendingar sýni gremju sína heitast allra á samfélagsmiðlum má segja að þeir séu IKEA-sjúkir. Ísland var eitt af 10 fyrstu löndunum sem húsgagnarisinn opnaði verslun í, árið 1981 en þá sem litla deild innan Hagkaupa.

Fljótlega flutti IKEA í Hús verslunarinnar þar sem búðin var allt til ársins 1994 þegar opnað var í Holtagörðum í 9 þúsund fermetra rými. Árið 2006 var núverandi húsnæði reist, tæplega 21 þúsund fermetrar að stærð, með tveimur veitingastöðum, bakaríi og matarbúð. Verslunin er í eigu félagsins Hofs sem rekur einnig IKEA-verslanir í Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Var hagnaður af íslensku versluninni 210 milljónir króna á síðasta ári.