Forsvarsmenn Alþýðusambands Íslands liggja nú undir feldi og íhuga hvort og hvernig hvort ásökunum Sólveigar Önnu Jónsdóttur verður svarað á opinberum vettvangi.

Sólveig Anna, sem stendur í slag við Ólöfu Helgu Adolfsdóttur og Guðmund Baldursson um formannsembætti í Eflingu, segir á facebook-síðu sinni að von sé á ályktun frá starfsfólki þeirra félaga sem eigi aðild að ASÍ til stuðnings framboði Ólafar Helgu, gegn Baráttulista Sólveigar.

Kosning til formanns og stjórnar félagsins hefst á morgun.

„Nú get ég auðvitað ekki fullyrt að þau sem undirbúa að senda ályktun frá stórum hópi starfsfólks félaga innan ASÍ skilji hversu gróflega þau eru með þessu að blanda sér í lýðræðislegar kosningar Eflingarfólks um það hver stýrir félaginu. En ég held að þau geri það. Ég held að til þess sé leikurinn gerður. Til að reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir að ég og félagar mínir á Baráttulistanum getum sigrað,“ segir Sólveig Anna á Facebook síðu sinni.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins skoðar ASÍ hvort viðbragð við þessum ummælum þýði að ASÍ verði með yfirlýsingu hluti af kosningabaráttu eða hvort trúverðugleiki ASÍ sé í hættu og að þess vegna þurfi að bregðast við.

Innan úr herbúðum ASÍ er staðhæft að Sólveig Anna fari með rangfærslur.

Sólveig Anna gagnrýnir fleiri mál innan ASÍ aftur í tímann í færslu sinni.