Læknafélag Íslands íhugar nú að fara í herferð gegn oflækningum hérlendis. Myndu þau þar með feta í fótspor norska læknafélagsins og skyldra fagfélaga í tuttugu öðrum ríkjum sem skorið hafa upp herör gegn oflækningum. Þetta kemur fram í Læknablaðinu í dag.

Samkvæmt nýrri könnun norska læknafélagsins, Legeforeningen, þar sem 1500 læknar voru spurðir, kom í ljós að níu af hverjum tíu barna-, röntgen- og heimilislæknum í Noregi telja að oflækningar séu stundaðar í landinu. Átta af tíu telja þær vandamál í Noregi og tveir af hverjum þremur segjast taka þátt í oflækningum.

Staða oflækninga álíka hérlendis

Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir í samtali við Læknablaðið enga ástæðu til að ætla annað en að staða oflækninga sé álíka hér og í Noregi. Hún segir heimilislækna oft á tíðum grípa til víðtækari úrræða en þeir telji sjálfir nauðsynleg.

„Menn velja oft fljótlegustu leiðina sem er að skrifa út eitthvert lyf eða koma sjúklingi annað í staðinn fyrir að sannfæra hann um að það sé í lagi að bíða og sjá,“ segir Sigríður Dóra.

Þrýstingur og tilvísanir til sérfræðinga orsökin

Stefán Hjörleifsson, læknir á háskólasjúkrahúsinu í Björgvin, er formaður nefndar norska læknafélagsins sem heldur utan um átakið um að draga úr oflækningum þar í landi.

Stefán segir ólíka nálgun milli héraða í Noregi hafa gefið sterka vísbendingu um oflækningar því í sumum þeirra hafi verið gert tíu til tuttugufalt meira fyrir sjúklinga en í öðrum. Hann kynnti átakið á Íslandi fyrir stjórn læknafélagsins í maí.

„Meira er ekki alltaf betra,“ segir Stefán við Læknablaðið. „Norsku læknarnir telja helstu ástæðu oflækninga þrýsting og óþarfa tilvísanir heimilislækna til sérfræðinga.“

Sigríður Dóra segir það mjög jákvætt ef Læknafélagið réðist í slíkt átak á Íslandi og segir: „Ég held að átak sem þetta sé bæði nauðsynlegt og gott inn í umræðuna um að til séu svo mörg úrræði við krankleika og vanlíðan.“