Hafnarfjarðarbær mun kynna fyrir íbúum nýjar veglokanir til þess að bregðast við afar umdeildri lokun Garðabæjar á Garðahraunsvegi.

Síðan veginum var lokað, til að minnka umferð um Prýðahverfi, hefur umferð stóraukist í íbúðahverfi norðurbæjar Hafnarfjarðar. Meðal þess sem kynnt verður er að loka á alla umferð úr Garðabæ um Herjólfsbraut.

Ingi Tómasson, formaður skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar, segir mikla gremju vegna lokunarinnar. Þá hafi íbúar Hleinahverfis í Garðabæ mótmælt harðlega þar sem þeir þurfa nú að keyra 2 til 3 kílómetrum lengri leið. Lokunin hafi líka áhrif á starfsfólk og vistmenn dvalarheimilisins Hrafnistu.

„Ein leið sem verið er að skoða er að loka fyrir umferð inn á Skjólvanginn, Heiðvanginn og loka Hleinahverfið af, svo við fáum ekki viðbótarumferð inn í bæinn,“ segir Ingi. Þar sem kærumálum bæði bæjarins og íbúa í norðurbænum sé nú lokið, Garðabæ í vil, þurfi að bregðast við til að vernda norðurbæinn. Garðabær hafi ekki staðið við að gera tengiveg milli Álftanesveganna, nýju og gömlu, vegna aukningar um Hafnarfjörð.

Samkvæmt talningu sem Hafnarfjarðarbær lét gera, hefur orðið 40 prósenta aukning á Herjólfsbrautinni og 13 prósenta aukning á Skjólvangi. Meðalhraðinn á Skjól­vangi, sem hefur 30 kílómetra á klukkustunda hámark, mældist 37 og hæst 69. Fullyrt er að fleiri ökumenn noti Skjólvang sem tengigötu.

SAXoPicture-09E9D4F0-145869960.jpg

Ingi Tómasson formaður skipulags og byggingaráðs Hafnarfjarðar

Ingi bendir á að samkvæmt deiliskipulagi standi til að byggja í kringum Hrafnistu og muni umferðin því aukast. „Garðabær er að leysa smávanda hjá sér með því að varpa miklum vanda til okkar,“ segir hann.

„Það er leiðinlegt að þetta skuli koma upp því að samskipti Hafnarfjarðar og Garðabæjar hafa verið góð í áratugi.“

Bæjarráð Garðabæjar hefur lýst undrun yfir mótmælum Hafnarfjarðar og bókaði að umferðaraukningin væri „lang líklegast tilkomin vegna umferðar íbúa Hafnarfjarðar sem áður fóru til síns heima í gegnum íbúðahverfi í Garðabæ.“

Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Garðabæjar, hafnar því að verið sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni og segir Garðahraunsveginn hafa verið orðinn hættulegan fyrir svo mikla umferð.

„Þetta er ný staða og fólk verður að setjast niður til að finna bestu lausnina fyrir alla,“ segir hún. Vegurinn verði þó ekki opnaður á ný.