Samtök iðnaðarins sendu fyrir jól áskorun til stjórnar og eigenda Sorpu bs. um að fallið yrði frá fyrirhuguðum hækkunum á gjaldskrá fyrirtækisins og þess í stað reynt að hagræða í rekstri félagsins. Hin nýja gjaldskrá á að taka gildi þann 1. janúar næstkomandi og með henni er gert ráð fyrir að heildartekjur Sorpu aukist um 24 prósent á næsta ári.

Ekki er vanþörf á enda stendur reksturinn ekki undir sér og því þarf að fylla upp í um 900 milljóna króna gat í rekstrarreikningi næsta árs og 700 milljónir til viðbótar árið 2021. Þó er ekki farin sú leið að hækka verðskrána um 24 prósent á línuna heldur hækka sumir liðir margfalt meira en aðrir. Til að mynda hækkar móttaka á gleri og steinefnum um 267 prósent.

„Þegar um opinberan aðila eins og Sorpu er að ræða þá eiga þjónustugjöld að endurspegla það sem kostar að veita þjónustuna en ekki vera tekjuskapandi. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir hafa stjórnendur Sorpu ekki getað sýnt fram á að kostnaður við þjónustuna hafi aukist þannig að það réttlæti þessa gríðarlegu hækkun,“ segir Lárus M. K. Ólafsson, viðskiptastjóri á framleiðslusviði Samtaka iðnaðarins.

Hann segir afar mikilvægt að forsendurnar liggi fyrir enda hafi skjólstæðingar hans áhyggjur af því að verið sé að rukka þá fyrir kostnað sem fellur til við aðra starfsemi Sorpu, til dæmis rekstur gas- og jarðgerðarstöðvarinnar GAJA. Þá hafi skjólstæðingar áhyggjur af því að verið sé að hækka liði á mörkuðum sem Sorpa er með nánast einokunarstöðu á.

GAJA  gas- og jarðgerðarst.jpg

GAJA, gas- og jarðgerðarstöð

Í áskoruninni kemur einnig fram að Samtök iðnaðarins séu afar ósátt við að hafa ekki fengið að funda með stjórnendum Sorpu fyrr en eftir að ákvörðunin um gjaldskrárhækkunina var tekin. Skora því samtökin enn fremur á eigendur Sorpu að huga að vönduðum stjórnsýsluháttum. „Við erum afar ósátt með að vera kölluð að borðinu eftir að ákvarðanir hafa þegar verið teknar. Það verður að vera samráð við hagsmunaaðila,“ segir Lárus.

Helgi Lárusson, framkvæmdastjóri Endurvinnslunnar, segir að verðskrárhækkun Sorpu standist enga skoðun. Fyrirtækið taki við um 8 þúsund tonnum af gleri á ári, mest frá Endurvinnslunni. „Það hefur ekkert breyst í þeirri einföldu þjónustu sem Sorpa veitir okkur. Flutningabíll flytur glerið upp eftir, þar sem farmurinn er veginn og honum er síðan sturtað niður í haug. Í flestum tilvikum er síðan ýta notuð til að ýta haugnum til fyrir vegagerð eða annað. Okkar efni kemur hvergi nærri gas- og jarðgerðarstöðinni sem forsvarsmenn Sorpu segi að valdi hækkuninni,“ segir Helgi. Að hans sögn sé beinn kostnaður Sorpu við að veita þessa þjónustu um 4 milljónir króna á ári.

F26011018 endurvinna 05.jpg

Helgi Lárusson, framkvæmdastjóri Sorpu

„Samkvæmt þessari nýju verð­skrá verður að greiða Sorpu um 42 milljónir króna á ári, án virðisaukaskatts, fyrir þessa þjónustu. Raunkostnaðurinn er því 10 prósent af þessari upphæð en óbeinn, óútskýrður kostnaður er 90 prósent.“

Helgi segir að ef eigendur Sorpu standi við hinar fyrirhuguðu hækkanir verði Endurvinnslan að leita réttar síns í málinu.