Stjórnvöld í Bandaríkjunum íhuga nú að hætta undirbúningi þess að F-35 herþotur verði seldar til Tyrklands. Reuters greindi frá málinu í gær.

Ósætti hefur verið á milli ríkisstjórnanna tveggja vegna áforma Receps Tayyips Erdogan, forseta Tyrklands, um að fjárfesta í S-400 loftvarnakerfi frá Rússlandi.

„S-400 er tölva. F-35 er tölva. Þú tengir tölvu þína ekki við tölvu andstæðingsins og það er einmitt það sem við værum að gera með þessum viðskiptum,“ sagði Katie Wheelbarger, starfandi aðstoðarmaður dómsmálaráðherra í málefnum alþjóðlegra öryggismála, við miðilinn.

Joseph Dunford, æðsti hershöfðingi bandaríska hersins, sagðist vongóður um að Bandaríkin og Tyrkland gætu leyst deiluna um S-400 kerfið. Þetta væri hins vegar flókið mál.

„Jafnt framkvæmdavald okkar sem löggjafarvaldið eiga erfitt með að réttlæta samspil S-400 og þróuðustu herþota sem við eigum, F-35. Við erum vongóð um að það sé hægt að útkljá þetta mál en það verður afar flókið,“ sagði Dunford á fundi í höfuðborginni Washington.