„Ég held að Selenskíj muni biðja Íslendinga um að styðja Úkraínu áfram og hann mun þakka þeim fyrir að nefna torg í Reykjavík Kænugarðstorg,“ segir Ihor Stakh, úkraínskur blaðamaður sem fékk dvalarleyfi af mannúðarástæðum á Íslandi árið 2020.

Hann nefnir líka flóttafólkið sem hingað hefur komið en fjöldi þess nálgast brátt þúsund frá upphafi innrásarinnar. „Selenskíj mun líka þakka Íslendingum fyrir að hafa tekið við mörgum úkraínskum flóttamönnum.“

Ihor hafði ekki fengið fregnir af fyrirhuguðu ávarpi Úkraínuforseta til íslensku þjóðarinnar þegar Fréttablaðið hafði samband við hann í gær.

Hann kveðst því miður ekki geta horft á ávarp Selenskíjs í beinni útsendingu sökum þess að hann verður upptekinn í nýrri vinnu, en fyrsti vinnudagur hans er einmitt í dag.

Tæknimenn í óða önn að finna lausnir

Birgir Ármannsson forseti Alþingis mun setja fund Alþingis með Úkraínuforseta klukkan tvö eftir hádegi.
Fréttablaðið/Ernir

„Þing­menn hafa ekki hlýtt á á­varp er­lends þjóð­höfðingja með þessum hætti áður, hvorki í eigin per­sónu né í gegn um fjar­fundar­búnað,“ sagði Birgir Ár­manns­son, for­seti Al­þingis, í gær.

Tækni­menn voru í óða­önn að finna lausnir á því hvernig við­burðurinn gæti farið sem best fram. Kvaðst Birgir telja að lang­flestir þing­menn gætu mætt í þing­sal í dag.

Eftir að for­seti Al­þingis býður fólk vel­komið til fundar og fyrir á­varp for­seta Úkraínu mun Guðni Th. Jóhannes­son, for­seti Ís­lands, sem verður gestur Al­þingis, segja nokkur orð og að lokinni ræðu Selenskíjs fer Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra einnig með örfá orð.

Fundurinn hefst klukkan 14.00 og hægt verður að fylgjast með honum í beinni út­sendingu hér á vef Frétta­blaðsins.