Forskot Íhaldsflokksins á Verkamannaflokkinn mælist níu prósentustig samkvæmt nýrri könnun sem BMG gerði fyrir dagblaðið The Independent og birt var í gær. Kosið verður til neðri deildar breska þingsins næstkomandi fimmtudag.

Samkvæmt könnuninni fengi Íhaldsflokkurinn 41 prósent atkvæða sem er tveimur prósentustigum meira en í könnun sem BMG gerði í lok nóvember. Verkamannaflokkurinn mælist nú með 32 prósent sem er einu prósentustigi minna en í síðustu könnun. Brexit-flokkurinn mælist áfram með fjögur prósent.

Boris Johnson, forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins, ritaði opið bréf þar sem hann segir kosningarnar á fimmtudaginn sögulegar. Þar gefist Bretum tækifæri til að halda áfram eftir Brexit.

Johnson vildi ekki svara því í samtali við Sky-fréttastofuna hvort hann myndi segja af sér embætti forsætisráðherra ef flokkur hans næði ekki meirihluta í neðri deild þingsins.

Þá ítrekaði hann að samkvæmt Brexit-samningi sínum yrði ekkert eftirlit með vöruflutningum til og frá Norður-Írlandi. Það væri rangt sem fram kæmi í minnisblaði fjármálaráðuneytisins sem var lekið að sú yrði raunin.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, segir hins vegar að kosningarnar séu tækifæri til að kjósa von. Hann bjóði upp á metnaðarfyllstu áætlunina til að breyta samfélaginu í áratugi.

Skuggafjármálaráðherra Verkamannaflokksins, John McDonnell, sagði í samtali við BBC að flokkurinn ætlaði að umbreyta hagkerfinu fengi hann til þess umboð. Markmiðið væri að efnahagskerfið virkaði fyrir alla sem þýddi að breyta yrði formi kapítalismans.

Kosningabaráttan er nú komin á lokametrana og í gær lögðu flokkarnir áherslu á lykilatriði í kosningastefnu sinni. Skilaboð Íhaldsflokksins snerust um loforð um upptöku ástralska kerfisins í innflytjendamálum. Þannig yrði sérstöku stigakerfi beitt til að koma stjórn á innflutning ósérhæfðs vinnuafls.

Verkamannaflokkurinn minnti á áætlun sína um velferðarmál þar sem í boði yrði ókeypis persónuleg velferðarþjónusta fyrir aldraða. Þá yrði 10 milljörðum punda aukalega varið til velferðarmála til 2024.

Frjálslyndir demókratar, sem mældust með 14 prósenta fylgi í könnun BMG, héldu á lofti áætlun sinni um svæðisbundna jöfnun. Þannig yrði allt 50 milljörðum punda varið í fjárfestingar í innviðum utan Lundúna.

Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, telur að framtíð Skotlands sé undir í kosningunum. Hún biðlar til kjósenda að fylkja sér að baki flokknum til að flýja Brexit, vernda heilbrigðiskerfið og setja framtíð Skotlands í hendur Skota sjálfra.

Þótt umræða um Brexit hafi verið áberandi í kosningabaráttunni eru fjölmörg önnur mál kjósendum ofarlega í huga. Þannig stóð sjónvarpsstöðin Channel 4 fyrir kappræðum þar sem fulltrúar flokkanna ræddu um allt nema Brexit. Þar var meðal annars rætt um heilbrigðismál, velferðarmál, efnahagsmál og loftslagsmál.