Svandís Svavarsdóttir, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, hefur ráðið þau Iðunni Garðarsdóttur og Kára Gautason sem aðstoðarmenn sína. Fram kemur í tilkynningu á vef stjórnarráðsins að Iðunn hafi þegar hafið störf en hún fylgdi Svandísi úr heilbrigðisráðuneytinu en Kári kemur til með að hefja störf þann 10. janúar.
Kári Gautason er fæddur á Akureyri árið 1989 og ólst upp á Grænalæk í Vopnafirði. Hann er stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri. Hann lauk BS prófi í búvísindum frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri árið 2013, og meistaragráðu í búvísindum með áherslu á erfðafræði frá Árósarháskóla árið 2017.
Kári starfaði sem bóndi árin 2013 - 2015 , var ráðunautur í loðdýrarækt í hlutastarfi 2013-2017 og var framkvæmdastjóri þingflokks Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs 2018-2020.
Seinast starfaði Kári sem sérfræðingur og staðgengill framkvæmdastjóra hjá Bændasamtökum Íslands og sem stjórnarmaður í stjórn Byggðastofnunar. Hann lætur nú af þeim störfum til að gerast aðstoðarmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Í kjölfar kosninganna 2021 hlaut Kári sæti sem annar varaþingmaður VG í Norðausturkjördæmi. Maki Kára er Gró Einarsdóttir, doktor í félagssálfræði, og saman eiga þau eina dóttur.
Iðunn Garðarsdóttir hefur starfað sem aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra frá árinu 2017 og er nú aðstoðarmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Iðunn er fædd í Reykjavík árið 1989. Hún er stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlið, lauk BA prófi í íslensku frá Háskóla Íslands árið 2013, BA prófi í lögfræði frá sama skóla árið 2015 og meistaraprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands vorið 2017. Iðunn starfaði sem lögfræðingur hjá lögmannsstofunni Juris áður en hún hóf störf í heilbrigðisráðuneytinu.
Iðunn var virk í starfi Röskvu innan Háskóla Íslands, var formaður félagsins árin 2012-2013 og sat í Stúdentaráði og Háskólaráði fyrir hönd fylkingarinnar. Iðunn er í sambandi með Skúla Arnlaugssyni og saman eiga þau eina dóttur.