„Aðsókn kvenna í iðnnám hefur aukist mjög undanfarin þrjú ár og í sumum greinum hefur fjöldi þeirra jafnvel tvöfaldast, svo sem í pípulögnum, húsasmíði, rafvirkjun og dúklögn,“ segir Margrét Halldóra Arnarsdóttir, kennari í rafvirkjun í Tækniskólanum og formaður Félags fagkvenna.

Margrét segir skýringuna líkast til að finna í því að konur hafi eignast fyrirmyndir í greinunum auk þess sem iðngreinar voru í auknum mæli kynntar fyrir stúlkum og drengjum í skólum, svo sem í gegnum Félag fagkvenna. Hún segir félagið leggja áherslu á að kynna iðnnám fyrir öllum kynjum og eyða staðal­ímyndum um bæði iðnaðarmenn og iðnnám.

Félagið sé ætlað konum í karllægum greinum hvort sem þær hafi lokið sveinsprófi, séu í námi eða bara að íhuga að fara í nám. Starfið hafi, eins og svo margt annað, verið með óhefðbundnu sniði á tímum Covid en nú sé Húsasmiðjan orðin bakhjarl félagsins og blásið verði til sóknar. Í félaginu séu nú um 75 fagkonur. Flestar komi þær úr byggingargreinum en lúmskt margar úr bíliðngreinum auk þess sem svo megi þar finna fagkonur úr rafvirkjun, rafeindavirkjun, skrúðgarðyrkju og vélstjórn svo eitthvað sé nefnt.

Húsasmiðurinn Melkorka María Guðmundsdóttir segir að sér þyki það eitt það besta við starf sitt að fá að sjá afrakstur vinnu sinnar eftir hvern dag. Hún hafi oft lent í því að ókunnugir spyrji hana hvort hún sé dóttir smiðsins. „Það kemur svo fyrir að spurningar sem ætlaðar eru mér rata fyrst til strákanna á vinnustaðnum, en það má alveg hlæja að því,“ segir hún.

Melkorka tekur fram að hún eigi góða reynslu af samstarfsmönnum sínum en þar sem hún hafi aldrei unnið með annarri konu sé félagsskapurinn innan Félags fagkvenna henni sérlega mikilvægur og gott sé að geta leitað til annarra kvenna innan fagsins.

Margrét tekur undir þessi orð og segir starfið mikilvægt til að breyta staðalímyndum, vekja áhuga á iðngreinum, mynda ný tækifæri og auðvitað sé það líka svo skemmtilegt og gott að byggja upp meiri fagkvennsku í iðngreinum landsins.