Iðn­menntaðir geta farið beint í há­skóla­nám á næsta skóla­ári ef frum­varp mennta- og menningar­mála­ráð­herra, Lilju Al­freðs­dóttur, þess efnis verður sam­þykkt. Frum­varpið hefur enn ekki verið lagt fyrir þingið en finna má drög að því í Sam­ráðs­gátt stjórn­valda.

Mark­mið frum­varpsins er að jafna mögu­leika fólks á há­skóla­námi og gera iðn­nám eftir­sóknar­verðari kost. Lagt er til að lögum um há­skóla­nám verði breytt þannig að til jafns við að­gangs­skil­yrði „stúdents­próf“ komi að­gangs­skil­yrði um að nem­endur hafi lokið „loka­prófi af þriðja hæfnis­þrepi“.

Þannig geti þeir sem hafa lokið list-, tækni- og starfs­námi af þriðja hæfni­þrepi fengið beina inn­göngu inn í há­skóla án þess að þurfa að fara í svo­kallaða há­skóla­gátt.

Óvíst hvað breytingin myndi kosta

„Lengi hefur verið litið til stúdents­prófs sem aðal inn­töku­skil­yrðis í há­skóla, sem hefur leitt til þess að nem­endur sem hafa annars konar loka­próf frá fram­halds­skólum af sama hæfni­þrepi hafa ekki átt jafnan rétt til inn­göngu í há­skóla,“ segir í frum­varpinu.

„Nauð­syn­legt er að lagt sé mat á raun­veru­lega hæfni, en hæfni­við­miðin gera nem­endum, skólum, at­vinnu­veit­endum og öðrum hags­muna­aðilum kleift að sjá hvaða hæfni og getu nem­endur geti vænst að búa yfir við náms­lok. Auk þess sem gagn­sæi við­miðanna nýtist al­mennt fyrr­greindum aðilum, á­samt því að vera mikil­vægur þáttur í ytra eftir­liti með gæðum skóla­starfs.“

Þá segir að ekki liggi fyrir upp­lýsingar um hvort og þá hversu stór hópur muni óska eftir að komast í há­skóla­nám á grund­velli breytingarinnar og því sé ekki unnt að meta endan­legan kostnað af að­gerðunum fyrir ríkis­sjóð. Þó megi gera ráð fyrir að út­gjöld há­skóla aukist vegna vinnu við setningu að­gangs­við­miða og að­sókn í fram­færslu- og skóla­gjalda­lán aukist hjá Mennta­sjóði náms­manna. Það kallar allt á aukin út­gjöld úr ríkis­sjóði.

Stærsta breytingin á starfsmenntakerfinu í áratugi

Á mið­stjórnar­fundi Fram­sóknar í dag minntist Lilja, sem er einnig vara­for­maður Fram­sóknar, á frum­varpið í ræðu sinni. „Við erum að ryðja úr vegi kerfis­lægum hindrunum í starfs­mennta­kerfinu og við­brögðin birtast í ó­trú­legum á­huga á starfs­menntun sem kallast á við á­huga­svið nem­enda og þarfir sam­fé­lagsins,“ sagði hún. „Iðn­menntaðir munu fá að­gang að há­skólum frá og með næsta skóla­ári, rétt eins og bók­menntaðir fram­halds­skóla­nemar.“

Þá sagði hún einnig von á reglu­gerð í þá átt að skóla­kerfið tryggði náms­lok iðn- og starfs­nema í vinnu­staða­námi svo þau réðust ekki af að­stæðum þeirra til að komast á starfs­samning. „Þetta er lík­lega stærsta breytingin sem orðið hefur á starfs­mennta­kerfinu í ára­tugi,“ sagði hún.