Framtíð Iðnaðarsafnsins á Akureyri er í mikilli óvissu. Þetta segir Þorsteinn E. Arnórsson, hollvinur og fyrrverandi safnstjóri safnsins.

„Við verðum að loka safninu ef ekkert gerist fjárhagslega fyrir 1. mars,“ segir Þorsteinn.

Safnið hefur aldrei verið á föstum framlögum hjá Akureyrarbæ en notið stuðnings. Utanaðkomandi styrktaraðilar hafa átt stóran þátt í að halda rekstrinum gangandi, að sögn Þorsteins. Síðustu sex ár hefur staðan verið svo erfið að Þorsteinn hefur tekið að sér safnstjórn með hléum án þess að fá greitt fyrir.

Félagar í Hollvinasamtökum Iðnaðarsafnsins rituðu bænum bréf nýverið þar sem kemur fram að safnið þurfi 7,5 milljónir fyrir 1. mars. Annars verði því lokað.

„Ég ætla að geyma þau orð sem ég mun hafa um bæjarfulltrúa ef safninu verður lokað,“ segir Þorsteinn.

Iðnaður var áður mjög umfangsmikill á Akureyri. Safnið heldur utan um þá sögu og hefur vakið mikla athygli þau 25 ár sem það hefur starfað.

„Þetta er svo ungt lið sem stjórnar bænum að það man ekki þegar Akureyri var iðnaðarbær og við framleiddum hér allt sem við þurftum,“ segir Þorsteinn. „Það er einn vandinn.“

Í þessu samhengi megi einnig nefna skort á menningarlegu læsi sem skýri sorglega lokun Smámunasafnsins í Eyjafjarðarsveit í sparnaðarskyni.

Þorsteinn telur ungan aldur bæjarfulltrúa koma í veg fyrir menningarlegan skilning.