Sú stað­reynd að í­þrótta­fé­lög geta ekki veitt þjónustu sína, nú þegar sam­komu­bann er í gildi, telst ekki van­efnd gagn­vart iðk­endum. Iðk­endur geta því ekki krafist þess að æfingar fari fram með hefð­bundnu sniði né krafist skaða­bóta vegna þess að æfingar hafa fallið niður.

Í sam­eigin­legri til­kynningu ÍSÍ og UMFÍ, sem send var fjöl­miðlum í kvöld, kemur fram að í ljósi stöðunnar í sam­fé­laginu af völdum kóróna­veirufar­aldursins hafi vaknað spurningar um endur­greiðslu æfinga­gjalda í­þrótta­fé­laga. ÍSÍ og UMFÍ hafa leitað ráð­gjafar vegna þessa.

„Sam­kvæmt þeirri ráð­gjöf eru þessar að­stæður sem nú eru uppi dæmi um ytri at­vik sem ekki voru fyrir­séð og ekki unnt að koma í veg fyrir. Sú stað­reynd að í­þrótta­fé­lög geta ekki veitt þjónustu sína telst því al­mennt ekki van­efnd gagn­vart iðk­endum. Iðk­endur geta því ekki krafist þess að æfingar fari fram með hefð­bundnu sniði né krafist skaða­bóta vegna þess að æfingar hafa fallið niður. Hins vegar þarf að koma til móts við iðk­endur vegna þess tíma­bils sem æfingar liggja niðri,“ segir í til­kynningunni.

Lengi æfingatímabilið eða bjóði upp á aukaæfingar

ÍSÍ og UMFÍ mæla með því að fé­lögin haldi á­fram að þjónusta iðk­endur með fjar- og heima­æfingum eins og best er kostur. Þá er einnig mælt með því að fé­lögin komi til móts við iðk­endurna og for­ráða­menn þeirra með því að lengja æfinga­tíma­bilið eða bjóða upp á auka­æfingar og/eða nám­skeið. Tíma­lengd og fyrir­komu­lag ræðst af því hversu mikla þjónustu fé­lögin hafa getað veitt á meðan sam­komu­bannið varir.

Bent er á að að­stæður og upp­setning æfinga­fyrir­komu­lags sé mjög mis­munandi milli eininga í í­þrótta­hreyfingunni og því erfitt að gefa eitt al­gilt svar fyrir hreyfinguna um­fram það sem hér er gefið.

„Ljóst er að allir lands­menn standa saman gegn vá­gestinum sem nú skekur heims­byggðina. Að­dáunar­vert að sjá að allir leggja sitt af mörkum til að hefta út­breiðslu hennar. Margir leggja mikið á sig í því verki. Starfs­fólk, þjálfarar og iðk­endur í­þrótta­fé­laga hafa þrátt fyrir að­stæður reynt eftir bestu getu að upp­fylla skyldur sínar þrátt fyrir for­dæma­lausar að­stæður og hvetjum við til þess að svo verði á­fram.

ÍSÍ og UMFÍ leggja á­herslu á í til­mælum sínum að á­byrgð og á­kvörðun um til­högun og ráð­stöfun æfinga­gjalda er al­farið á for­ræði aðildar­fé­laganna sjálfra og/eða deilda þeirra.“