Áin Thames iðar nú af lífi eftir að lýst hafði verið yfir að hún væri „líffræðilega dauð“ árið 1957, vegna mengunar. Þetta kemur fram í skýrslu Dýrafræðisamfélags London um ástand árinnar.

Í sex áratugi hefur verið unnið að því að bæta umhverfi árinnar og nú finnast þar 115 tegundir af fiskum og 92 tegundir af fuglum. Þar á meðal er gráháfur, hákarlategund sem er skráð í útrýmingarhættu, sæhestar, álar og selir.

Þá voru skrásettir tæplega sex hundruð hektarar af sjávarfiti, grónu svæði sem er ýmsum lífverum lífsnauðsynlegt.

„Árósar eru eitt af vanræktustu vistkerfum okkar,“ sagði Alison Debney sem leiðir endurheimt votlendis hjá félaginu.

„Þeir veita okkur hreint vatn, vernd gegn flóðum og eru mikilvægt búsvæði fyrir fiska og annað dýralíf,“ sagði Alison.

Þrátt fyrir að í skýrslunni sé jákvæðu ljósi varpað á áhrif umhverfisstarfsemi við ána, er einnig bent á að hækkandi hitastig vegna hamfarahlýnunar muni hafa áhrif á lífríkið endurheimta.