ID.4 er jepplingur en verður þó aðeins boðinn með afturhjóladrifi til að byrja með. Í þeirri útgáfu verður hann boðinn með 77 kWst rafhlöðu sem er með allt að 520 km drægi samkvæmt WLTP staðlinum. Rafmótorinn skilar 204 hestöflum og skilar bílnum í hundraðið á 8,5 sekúndum, en hámarkshraðinn verður 160 km á klst. Bíllinn verður með góða veghæð en 210 mm eru undir lægsta punkt. Að sögn Gunnars Smára Eggertssonar Claessen, merkjastjóra Volkswagen hjá Heklu verður bíllinn fyrst boðinn í svokallaðri 1st Edition útgáfu rétt eins og með ID.3, en nú með tvenns konar útfærslum í stað þriggja. „Verðið fyrir ID.4 1ST verður frá 6.490.000 kr. og ID.4 1ST MAX frá 7.990.000 kr. Síðan er hægt að bæta við dráttarbeisli á 170.000 kr. og hann má draga allt að 1.200 kg“ sagði Gunnar Smári. Fyrstu bílarnir eru væntanlegir til landsins í desember og hefjast afhendingar strax í byrjun janúar 2021. Að sögn Gunnar Smára er þetta eina útfærslan af ID.4 sem komið er verð á. „Eftir 1st Edition bílana munum við bjóða ID.4 í almennri útgáfu með tvenns konar rafhlöðum, ID.4 Pure með 52 kWst rafhlöðu og síðan ID.4 Pro og Pro Performance með 77 kWst rafhlöðu. Til viðbótar fáum við svokallaða GTX útgáfu næsta vor sem verður rúmlega 300 hestöfl og með fjórhjóladrifi“ sagði Gunnar Smári enn fremur. Verðin á GTX útgáfunni liggja þó ekki fyrir að svo stöddu.

Tveir upplýsingaskjáir verða allsráðandi í mælaborði en þar er margt raddstýrt.