Icelandair hefur sent viðvörun á þá farþega sem eiga bókað flug með þeim á morgun, föstudaginn 22. mars, þar sem þeir eru varaðir við verkfalli rútubílstjóra sem hefst á miðnætti. Í smáskilaboðum, sem farþegum flugfélagsins barst fyrr í dag, kemur meðal annars fram að verkföll morgundagsins gæti haft áhrif á ferðir farþega til Keflavíkur frá miðnætti. 

Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Reykjavík Excursions, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að fyrirtækið, sem meðal annars sinnir akstri frá höfuðborgarsvæðinu til Keflavíkur, myndi leggja áherslu á að halda þeirri þjónustu gangandi í verkfallinu. Um þrjátíu bílstjórar fyrirtækins eru í öðrum stéttarfélögum en VR og Eflingu, sem boðað hafa verkföllin og munu þeir mæta til vinnu á morgun að sögn Björns. 

Efling hefur hins vegar hvatt rútubílstjóra til að standa saman, óháð stéttarfélagi, og telur að verkfallsboðunin nái til allra rútubílstjóra á félagasvæði Eflingar. 

Icelandair hefur þó hvatt farþega sína, sem eiga flug á meðan sólarhrings verkfallinu stendur, og vilja nýta sér þjónustu hópbifreiða, að mæta tímanlega upp á flugvöll.