Þingfesting fór fram í Félagsdómi í gær í máli Ólafar Helgu Adolfsdóttur, hlaðkonu hjá Ice­landair á Reykjavíkurflugvelli, eftir að henni var sagt upp í sumar. ASÍ rekur málið en sambandið telur að Ólöf hafi notið uppsagnarverndar.

Í stefnunni er farið þess á leit að viðurkennt verði með dómi að uppsögnin sé brot gegn 11. grein laga númer 80/1938. Þess er krafist að Icelandair verði dæmt til að greiða sekt í ríkissjóð samkvæmt ákvörðun réttarins.

Ágreiningur hefur verið milli Ice­landair og Eflingar, stéttarfélags Ólafar, um hvort hún hafi gegnt stöðu trúnaðarmanns þegar henni var sagt upp. Samkvæmt tölvupósti frá Samtökum atvinnulífsins sem vitnað er til í stefnunni, telja samtökin að Ólöf hafi verið hópstjóri og komið sem slík fram fyrir hönd hlaðmanna og haft samskipti við aðra stjórnendur. Hún hafi ekki verið í stöðu öryggistrúnaðarmanns eins og Efling hafi haldið fram. Hún hafi verið í öryggisnefnd fyrir Flugfélag Íslands en Ólöf hafi starfað fyrir Ice­landair og þar sé starfandi öryggisnefnd sem Ólöf hafi ekki tengst.

Frá mótmælum Eflingar við Reykjavíkurflugvöll.
Fréttablaðið/Ernir

Mikið ber á milli deilenda í ýmsum atriðum. Ummæli um meintan trúnaðarbrest Ólafar, sem sagt er að yfirmaður Icelandair hafi rætt við fjölda starfsmanna Ólafar, hafi verið dreginn til baka af hálfu Icelandair. Alvarlegar ásakanir hafi reynst tilhæfulausar. Í versta falli telur ASÍ að samskiptavandi hafi verið fyrir hendi en engin rök fyrir uppsögn.

Ólöf segir að henni sé létt að málið sé komið í formlegan farveg. „Ég er mjög vongóð, ég er viss um að þessu máli muni ljúka okkur í hag, hvort sem það verður í gegnum dómstóla eða að Icelandair dregur uppsögnina til baka.“

Allir samstarfsmenn Ólafar í hlaðdeildinni verða kallaðir sem vitni fyrir dóminn. Ólöf segir að því hafi verið haldið fram að þeir séu hræddir við hana, sem sé alrangt. „Það er enginn vafi í mínum huga að þeirra vitnisburður mun styðja mitt mál.“