Icelandair auglýsir ferðir til Kaupmannahafnar í sumar. Flogið verður daglega frá 15. júní samkvæmt auglýsingu frá flugfélaginu sem var send út í dag.

Fréttablaðið greindi frá því fyrr í vikunni að Icelandair ætli að fljúga til Kaup­manna­hafnar, Osló, Frankfurt, Ber­lín og síðar Amsterdam eftir að landið opnar á ný. Einhver óvissa ríkir með ferði til Stokkhólms og London vegna kórónaveirufaraldursins.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, tilkynnti á blaðamannafundi í dag að dönsk stjórnvöld hafa ákveðið að opna fyrir ferðir frá Íslandi, Noregi og Þýskalandi frá og með 15. júní.

Þrátt fyrir að Íslendingar megi ferðast til Danmerkur frá og með 15. júní mega þeir ekki gista í Kaupmannahöfn en þar hafa flest smit komið upp í landinu. Heimilt verður að heimsækja höfuðborgina og borða á veitingastöðum þar en ferðamenn þurfa að sýna fram á að hafa bókað gistingu í minnst sex nætur á hótelum, gistiheimilum eða tjaldsvæðum fyrir utan borgina.

Dönsk stjórnvöld ætla að fara varlega í opnun landsins og er ekki búist við að ferðamenn frá fleiri löndum bætist við fyrr en í haust.