Icelandair bætir við þremur Boeing 737 MAX vélum í sumar og verður þá með samtals 34 vélar í millilandaflugi. Þá bætist ein Q400-vél við í innanlands- og Grænlandsflugi.
Félagið hyggst fljúga til fjögurra nýrra áfangastaða á nýju ári; Barcelona, Prag, Detroit og Tel Avív, ásamt því að auka tíðni á þá staði sem flogið er nú þegar til. „Það er mjög margt í gangi hjá okkur og vel hefur gengið að greiða úr afleiðingum óveðursins fyrir jól,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Hann segir óveðrið hafa haft áhrif á um 24 þúsund farþega og að starfsfólk Icelandair hafi unnið algjört kraftaverk. „Langflestir komust á áfangastað fyrir jól.“
Ekki sé enn ljóst hversu mikið tjón hlaust af óveðrinu fyrir félagið, það verði skoðað á nýju ári. „Auðvitað hafa allar svona truflanir áhrif en það er hluti af því að reka flugfélag á Íslandi. Við gerum alltaf ráð fyrir einhverjum kostnaði í tengslum við truflanir vegna veðurs og annars.“
Félagið er á fullu í öðrum stórum verkefnum að sögn Boga en áform eru um að gera Ísland að tengimiðstöð fyrir fraktflutninga á milli Evrópu og Norður-Ameríku. Til að styðja við þau áform mun félagið efla fraktstarfsemi sína með tveimur Boeing 767-300 breiðþotum.
Fraktvélarnar taka um tvöfalt meiri frakt en þær vélar sem fyrir eru. „Við erum að byggja upp höfn hér fyrir flugfrakt eins og við höfum verið að gera í farþegaleiðarkerfinu. Önnur vélin er nú þegar byrjuð og flýgur til New York, Chicago og Liége í Belgíu. Seinni vélin kemur í vor og flýgur til Los Angeles líka,“ segir Bogi spenntur fyrir verkefnum nýs árs.