Icelandair Cargo mun frá og með næstu helgi hefja fraktflug á milli Heathrow-flugvallar í London og Boston með stoppi á Íslandi. Með því er bætt við leiðum við flugáætlun félagsins á fraktvélum.

Með þessari ákvörðun er fyrirtækið að sækja inn á nýjan, stóran markað. Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri Icelandair Cargo, segir að þetta sé spennandi skref í núverandi landslagi flugfyrirtækja.

„Það hafa talsverðar breytingar átt sér stað í fraktflutningum. Um 60% af fraktflutningum fóru áður með farþegaflugi en framboðið hefur snarminnkað og er því skortur á fraktplássi. Heathrow er stærsti farþegaflugvöllur heims en hann er líka afar stór í fraktflutningum. British Airways var með fjögur til fimm flug daglega til Boston sem báru mikla frakt. Fyrir vikið sjáum við okkur leik á borði að fara inn á þennan markað. Við byrjum á einu flugi í viku en erum tilbúnir að bæta við flugum ef vel gengur.“

Gunnar tók undir að það væri nú verkefni flugfélaga að finna sífellt nýja tekjumöguleika.

„Verkefnið er að búa til eins miklar tekjur og hægt er í þessu litla tekjuumhverfi sem er í flugi þessa dagana vegna COVID-19. Við sáum tækifæri til að sækja í stóran markað til viðbótar við þann fraktflutning sem við stunduðum áður.“