Loftleiðir, dótturfélag Icelandair, hefur fengið leyfi frá bandarísku samgöngustofnuninni, DOT, fyrir leiguflugi milli þriggja borga í Bandaríkjunum og Kúbu. Nokkur bandarísk flugfélög höfðu mótmælt leyfisveitingunni og sakað Icelandair um tækifærismennsku.

Um er að ræða 170 ferðir fram og til baka milli Miami á Flórída og höfuðborgarinnar Havana. Einnig 17 slíkar ferðir milli Havana og Orlando annars vegar og Houston hins vegar. Ferðirnar verða farnar fram til 31. maí næstkomandi.

Flugfélögin iAero Airways, GLOBALX og World Atlantic Airlines mótmæltu öll fluginu og sögðu það grafa undan bandarískum flugfélögum. ALPA, samtök bandarískra flugmanna, gerðu einnig athugasemdir við Kúbuflug Loftleiða. DOT tók hins vegar að fullu undir sjónarmið Icelandair í deilunni.