Icelandair hefur ákveðið að aflýsa öllum komum frá Norður-Ameríku í fyrramálið vegna veðurs. Þá hefur öllu morgunflugi til Evrópu verið aflýst og þar af leiðandi komum frá Evrópu seinnipartinn. Öllu innanlandsflugi hefur jafnframt verið aflýst á morgun, föstudag.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu. Tekið er fram að allir farþegar verði endurbókaðir sjálfkrafa og að ný ferðaáætlun verði send með tölvupósti.

Tekið er fram að undantekning sé þó gerð á flugum til og frá Tenerife og Alicante en gert er þó ráð fyrir að þessi flug verði fyrir töfum.

Gert er ráð fyrir að síðdegisflug til Norður-Ameríku, London og Kaupmannahafnar verði á áætlun en félagið mun fylgjast vel með veðri og upplýsa farþega ef breytingar verða.

Fyrirbyggjandi áætlanir virkjaðar

Vegna slæmrar veðurspár hóf Icelandair fyrirbyggjandi aðgerðir síðastliðinn þriðjudag og bauðst farþegum sem áttu bókað flug á morgun að flýta ferðalaginu.

Í tilkynningu Icelandair kemur fram að um 1700 farþegar hafi nýtt sér það. Upphaflega áttu um 3.700 bókað flug á þessum tíma en vegna aðgerðanna er nú gert ráð fyrir að raskanirnar hafi áhrif á um 2.000 farþega.

Margir farþegar sem komu með vélum Icelandair frá Norður-Ameríku til Íslands þurftu að bíða lengi í vélum sínum nú á sunnudag og þurftu sumir farþegar að bíða allt að tíu klukkustundir í vélunum áður en hægt var að hleypa þeim frá borði.

Slæmt veður um mest allt land

Búist er við slæmu veðri um mest allt landið á morgun og hefur veðurstofan gefið út gula viðvörun vegna veðurs.

Sú viðvörun á við um Höfuðborgarsvæðið, Suðurland, Faxaflóa, Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir og norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland að Glettingi og Miðhálendi.

Á vefsíðu Veðurstofu Íslands er einnig tekið fram að aukin flóðhætta geti skapast vegna krapastíflumyndunar í leysingum sunnan og vestanlands.