Icelandair hefur ákveðið að aflýsa öllu flugi til Evrópu í fyrramálið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu en ákvörðunin var tekin þar sem veðurspár benda til að svipaðar aðstæður geti skapast á morgun og verið hafa í dag. Ekki tókst að halda Reykjanesbraut opinni og samgöngur til og frá Keflavíkurflugvelli lágu að mestu leyti niðri.
Dagflugi til Tenerife, Las Palmas og Boston á morgun hefur verið seinkað en vonast er til að aðstæður lagist eftir því sem líður á daginn.
Farþegum flugfélagsins hefur verið bent á að fylgjast vel með tilkynningum frá flugfélaginu auk þess sem hægt er að nálgast nýjustu upplýsingar um flug með því að fara inn í viðkomandi bókun á vef Icelandair og í Icelandair appinu.
„Dagurinn hefur verið mjög erfiður fyrir farþega okkar og starfsfólk. Fáliðað var í hópnum okkar á Keflavíkurflugvelli þar sem starfsfólk átti erfitt með að komast til vinnu og vaktin var því undir miklu álagi,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
„Við þessar aðstæður var ekki unnt að veita farþegum þá þjónustu sem við hefðum viljað og biðjumst við afsökunar á því. Sem betur fer lítur nú út fyrir að í kvöld takist að koma farþegum frá Keflavíkurflugvelli til höfuðborgarsvæðisins,“

Unnið að því að koma fólki frá flugvellinum
Mikill fjöldi fólks festist á Keflavíkurflugvelli í dag þegar flugum þeirra var aflýst. Unnið er að því að koma öllum frá vellinum eins og stendur að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia.
„Það er enn verið að flytja fólk með rútum úr flugstöðinni. Það er einhver hópur þarna eftir en þetta voru í kringum fimmtánhundruð manns held ég sem staddir voru í flugstöðinni þegar mest var,“ segir Guðjóns
„Ég er ekki með nákvæmar tölur en þetta á að vera komið en þetta er komið vel innan við helming sem eftir er í flugstöðinni,“ segir Guðjón.

Úðarakerfi skemmdist
Bilun kom upp í úðarakerfi í anddyri komusals vallarins í kvöld en það er útgangurinn sem fólk þurfti að nota til þess að komast leiðar sinnar að rútunum.
„Eitthvað kemur upp á í úðarakerfinu sem er í anddyri komusalsins. Þar er rör sem verður fyrir tjóni og það fór að leka eitthvað af vatni og rafmagnið fór af þeim hluta í skamma stund,“ segir Guðjón en búið sé að loka fyrir vatnið núna og verið að vinna að því að hreinsa það upp.
Varðandi hverjar horfurnar eru á vellinum fyrir morgundaginn segir Guðjón það ekki alveg ljóst.
„Við náttúrulega erum bara að fylgjast með veðrinu og eins og spáin er lítur þetta ekkert sérstaklega vel út fyrir morgundaginn. Það er áfram gul viðvörun eitthvað fram eftir degi og fram á kvöld á morgun og við hvetjum farþega til þess að fylgjast vel með á komu og brottfararsíðum á vefnum okkar. Einnig hvetjum við farþega til þess að fylgjast vel með færð á vegum,“ segir hann.
Reykjanesbrautin lokuð
Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum sem barst klukkan 22:19 til fréttastofu kemur fram að búið sé að loka Reykjnesbrautinni aftur vegna veðurs.
Ekkert ferðaveður sé á Reykjanesbrautinni eins og staðan er núna en staðan verði endurmetin í fyrramálið.