Fiskvinnslufyrirtækið Iceland Seafood hefur hætt við að hætta starfsemi sinni í Bretlandi. Þetta var tilkynnt í gær. Fyrirtækið rekur meðal annars fiskvinnslustöð í borginni Grimsby.
Taprekstur hefur verið á starfsemi fyrirtækisins í Bretlandi undanfarin ár og á síðasta ári jókst það mjög mikið. Alls var tapið á fyrstu 9 mánuðum síðasta árs tæpur 1,5 milljarður króna. Þann 17. nóvember var tilkynnt að fyrirtækið hygðist hverfa af Bretlandsmarkaði.
Þann 6. desember var svo tilkynnt að Iceland Seafood hefði fundið kaupanda af starfseminni í Bretlandi. Ekki var gefið upp hver það væri né hvað viðkomandi myndi borga. Aðeins að það væri stór aðili á breskum fiskmarkaði.
Sú tilkynning virðist hafa verið frumhlaup því í gær var það tilkynnt að samningar um kaup hefðu ekki náðst. Hefur stjórnin því ákveðið að stöðva söluferlið um stundarsakir og halda áfram rekstrinum.