Iceland Seafood hefur fundið kaupanda að rekstri sínum í Bretlandi. Ekki hefur verið gefið upp hver þessi kaupandi er en talið er að það sé stór aðili á breskum fiskimarkaði. Hefur Ice­land Seafood gert við hann viljayfirlýsingu um sölu.

Stjórn Iceland Seafood tilkynnti þann 17. nóvember að félagið hygðist hverfa af Bretlandsmarkaði, en félagið hefur verið með stöðvar í Grimsby og áður í Bradford. Mikið tap hefur verið á rekstrinum.

Samkvæmt viljayfirlýsingunni er stefnt að því að kaupin gangi hratt fyrir sig og bindandi samningur verði kominn á í lok þessa mánaðar. Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp.